Hlauparöð FH og Bose var valið besta götuhlaup Íslands árið 2018 en hlaup.is stóð fyrir kosningu meðal þátttakenda.
Þetta er mikil viðkurkenning fyrir hlauparöðina en hlaupaleiðin er í miðbæ Hafnarfjarðar meðfram strandlengjunni, framhjá Hrafnistu og Norðurvangi og til baka.
Hlaupið, sem er 5 km langt, er síðasta fimmtudag í janúar, febrúar og mars og er vandað til hlaupsins með góðri brautarvörslu, aðstöðu og fl. og hefur Origo, umboðsaðili Bose á Íslandi lagt mikið í til að gera umgjörðina sem skemmtilegasta og glæsileg verðlaun.
Skákar hlaupið þá m.a. Reykjavíkurmaraþoni og fleiri hlaupum en Akureyrarhlaup Íslenskra verðbréfa og Átaks varð í 2. sæti og Icelandair hlaupið í 3. sæti.
Hlaupahópur FH sem stendur að hlaupinu er hluti af frjálsíþróttadeild FH og er einn stærsti hlaupahópur landsins. Hann var stofnaður í febrúar 2010 og hafa félagar hans tekið þátt í keppnum víða um heim. Í hópnum er blanda af afreksmiðuðum hlaupurum og hlaupurum sem hlaupa ánægjunnar og heilsunnar vegna og allt þar á milli.