Frá því að Hlaupahópur FH var stofnaður fyrir 10 árum síðan hefur verið hefð fyrir árlegum styrktarhlaupum þar sem hlauparar safna fé til góðs málefnis.
Í ár, á tíu ára afmælisári hópsins hefur lítið verið hægt að fagna tímamótunum, keppnishlaup hafa fallið niður, inniæfingar og árshátíð hópsins var eðlilega slegin af.
Hlaupahópurinn er einn stærsti hlaupahópur landsins og til marks um stærðina gafst félögum tækifæri á að panta nýja merkta hlaupajakka og lagði 171 hlaupari inn pöntun!
Færri viðburðir á árinu hefur orðið til þess að hópurinn hefur verið aflögufær og getað lagt hlaupafélögum sem hafa verið að glíma við erfið veikindi lið.
Nýlega tóku félagar í Hlaupahópi FH þátt í sínu öðru styrktarhlaupi á árinu og nú til að styrkja félaga í hópnum sem berst við brjóstakrabbamein.
Ekki var hægt að halda hefðbundið samhlaup eins og venjulega og var því brugðið á það ráð að hlaupa í allt að 6 manna hópum sem hlupu hver mismarga 5 km hringi. 114 hlauparar hlupu samtals 1.575 km á einum degi í þessu styrktarhlaupi, eða sem samsvarar heilum hring í kringum landið og rúmlega til Blönduós aftur. Samtals voru þetta 277 fimm km hringir og var hlaupið á ýmsum stöðum. Félagar tengdust á einum risa Zoom fundi og náðu þannig að virkja samkenndina og að hvetja hvern annan.
Fyrir hvern hring lagði hópurinn til 1.000 kr. og viðbótar 1.000 kr. fyrir hvern hring sem nýliðarnir í hópnum hlupu. Til viðbótar þessu lögðu hlaupararnir til viðbótar upphæð og þannig söfnuðust heilar 551.500 kr. sem runnu óskiptar í söfnunina.
Var afraksturinn afhentur í morgun með bataóskum.