Einni deildareiningu með tuttugu og tveimur íbúum á Hrafnistu í Hafnarfirði hefur verið lokað í forvarnarskyni og sett í sóttkví í kjölfar þess að starfsmaður deildarinnar greindist með kórónuveiruna um helgina.
Á heimilinu eru um tvö hundruð íbúar og hefur enginn þeirra veikst, né heldur á öðrum heimilum Hrafnistu sem eru átta talsins. Að óbreyttu verður deildin í Hafnarfirði í sóttkví til og með nk. fimmtudegi, 9. apríl, og hefur öllum aðstandendum verið gert viðvart.
Þann 20. mars greindist starfsmaður Hrafnistu í Laugarási smitaður og var þá gripið til sambærilegra aðgerða og nú hefur verið gert í Hafnarfirði.
Síðastliðinn föstudag gerði Hrafnista sérstaka deild tilbúna í forvarnarskyni til móttöku á íbúum sem reynast smitaðir af COVID-19. Deildin, sem staðsett er á Hrafnistu við Sléttuveg í Reykjavík, er ætluð íbúum á öllum Hrafnistuheimilunum sex á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að gera sambærilega deild tilbúna á Hrafnistuheimilunum tveimur í Reykjanesbæ.
Rétt er að árétta að enginn íbúi hjá Hrafnistu hefur smitast, aðeins tveir starfsmenn af um 1.500 sem starfa hjá Hrafnistu.