Skipulags- og byggingarráð hefur ítrekað mótmæli sín vegna lokunar gamla Álftanesvegar við Herjólfsbraut.
Á fundi ráðsins sl. mánudag kom eftirfarandi m.a. fram:
- Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, íbúar í Norðurbæ og í Hleinahverfi og Garðprýði í Garðabæ hafa mótmælt lokuninni harðlega.
- Niðurstöður umferðamælinga frá verkfræðistofunni Eflu sýnir með skýrum hætti umferðaraukningu í íbúðarhverfum eftir lokun vegarins.
Því skorar skipulags- og byggingarráð á bæjaryfirvöld í Garðabæ að endurskoða ákvörðun sína um lokun vegarins. Var samþykkt að niðurstöðurnar verði kynntar íbúum og að þar verði einnig kynntar mögulegar mótvægisaðgerðir sem gætu verið:
- Lokun frá Herjólfsbraut inn á Heiðvang
- Skjólvangur gerður að lokaðri götu, lokað við Herjólfsbraut
- Lokað á alla umferð úr Garðabæ inn í Hafnarfjörð um Herjólfsbraut
- Allt ofangreint
Byggt á nýjum talningum er ljóst að umferð um gatnamótin Herjólfsbraut – gamla Álftanesvegar hefur aukist í samanburði við talningu árið 2020. Kemur þetta fram í minnisblað Eflu. Árdegis hefur umferð að mestu aukist í vinstri beygju frá Herjólfsbraut og inn á gamla Álftanesvegar til vesturs. Draga má þá ályktun að ökumenn séu farnir að nota tengingu við nýja Álftanesveg í meira mæli en áður. Síðdegis var umferðarmagnið sambærilegt á milli talninga árin 2020 og 2021.
Ekki mikið um gegnumakstur um Heiðvang
Um 40 ökutæki fara um Heiðvang á hámarksklukkustund árdegis og síðdegis og er áætluð hversdagsumferð um 400 ökutæki á sólarhring. Umferðarmagnið er sambærilegt og í öðrum húsagötum á höfuðborgarsvæðinu og má því draga þá ályktun að ekki er mikið um gegnumakstur um Heiðvang.
Umferð um Skjólvang hefur aukist um 13%
Umferð um gatnamótin Herjólfsbraut – Skjólvang hefur aukist frá fyrri talningu árið 2018. Umferðin hefur aðallega aukist á Herjólfsbrautinni, bæði sunnan (40% aukning) og norðan (50% aukning). Umferð um Skjólvang hefur aukist um 13%, sem er um 200 ökutæki/sólarhring. Aukningin á milli talninga við Skjólvang er ekki mikil en þó er hægt að fullyrða að fleiri ökumenn nota Skjólvang sem tengigötu milli austurs og vestur þar sem engin ný byggð/þjónusta er á svæðinu sem gæti útskýrt þennan mun. Umferðarmagn í Skjólvangi, um 1.600 ökutæki/sólarhring er sambærileg og lítil safngata á höfuðborgarsvæðinu.
Til að átta sig betur á umferðarsköpun Skjólvangs og næsta nágrennis (húsagötur sem liggja að Skjólvangi) var reiknuð út umferðarsköpun fyrir hverfið, eða þeirri umferð sem snýr að Skjólvangi (þ.e. umferð frá Sævangi og Vesturvangi). Miðað var við ferðasköpunarjöfnu höfuðborgarsvæðisins (jafnan gerir ráð fyrir að íbúar á höfuðborgarsvæðinu skapi að meðaltali 1,85 bílferð á mann, þar sem hver ferð skapar 2 „ökutæki“). Gera má því ráð fyrir að um 950-1.000 ökutæki/sólarhring skapist vegna íbúðabyggðar sem liggur að Skjólvangi. Ljóst er að nokkuð er um gegnumakstur í Skjólvangi, að einhverju leyti gegnumakstur sem var til staðar fyrir lokun Gamla Álftanesvegar en hefur óhjákvæmilega aukist eftir lokun.
Mældur hraði ökutækja í Skjólvangi er töluvert hærri en uppgefinn hraði (30 km/klst.) og aka um 85% ökutækja á eða yfir uppgefnum hámarkshraða (30-69 km/klst.). Æskilegt væri að auka hraðatakmarkandi aðgerða í Skjólvangi.
Lesa má niðurstöður Eflu hér.