Hótel Hafnarfirði verður breytt í aðsetur hælisleitenda og hótelstarfsemi aflögð ef samningar nást milli Útlendingastofnunar og Grímannsfeslls ehf., eigenda hótelsins um leigu Útlendingastofnunar á öllu hótelinu undir hælisleitendur.
Gistináttum ferðamanna mun fækka verulega í Hafnarfirði
Á hótelinu eru 71 herbergi og rými fyirr um 150 gesti. Hefur nýting verið góð undanfarin ár eins og á flestum öðrum hótelum. Eru miklar áhyggjur af því meðal áhrifafólks að svona mikil fækkun verði á hótelrýmum í Hafnarfirði þegar vöntun er á hótelrýmum og nýjum hótelum í Hafnarfirði.
Útlendingastofnun hefur verið í miklum vandræðum með að hýsa alla þá fjölmörgu hælisleitendur og leigir í dag háu verði hótelherbergi og gistirými og var fyrr í mánuðinum búin að fullnýta öll þau rými sem stofnunin hafði yfir að ráða.
Arðsamara að leigja Útlendingastofnun
Vart hefðu eigendur hótelsins áhuga á að leigja það til Útlendingastofnunar nema vegna þess að Útlendingstofnun væri tilbúðin til að greiða hærra verð fyrir leiguna en eigendur fá í sinn hlut fyrir að reka þar hótelstarfsemi. Er þetta í algjörri andstöðu við þær óskir Hafnarfjarðarbæjar að hótelstarfsemi verði efld í Hafnarfirði.
Ekki boðið út
Telja viðmælendur Fjarðarfrétta að samningur til nokkurra ára væri útboðsskyldur og undrast menn að svona leiga, sem áætluð er hátt í 100 milljónir kr. á ári, skuli ekki vera boðin út.
Hafnarfjarðarbær hefur enga formlega aðkomu að málinu en fulltrúar bæjarins hafa verið boðaðir á fund í innanríkisráðuneytinu vegna málsins.
Ekki fengust neinar upplýsingar frá ráðuneytinu eða Útlendingastofnun við vinnslu fréttarinnar um þessar samningaviðræður en upplýst var að aldrei hafa fleiri flóttamenn komið til landsins í einum mánuði en nú í september og eru þeir mun fleiri en í síðasta mánuði þegar 67 báðu um hæli sem var metfjöldi.