Botn Hvaleyrarvatns er ekki þéttur og því flæðir vatn inn eða út úr vatninu eftir því hversu há grunnvatnshæð er við vatnið á hverju tíma. Þetta kemur fram í skýrslu sem Vatnaskil hefur gert fyrir Hafnarfjarðarbæ.
Í skýrslunni kemur fram að núverandi grunnvatnshæð við Hvaleyrarvatn liggi að miklu leyti undir botni vatnsins. Þar segir að í svona aðstæðum eins og er með lága grunnvatnsstöðu sé mjög erfitt að hækka vatnsborð með því að dæla vatni út í, því vatnið muni að mestu leyti leka beint niður að grunnvatnsborðinu. Til þess að hafa veruleg áhrif á vatnshæð í vatninu myndi þurfi að dæla umtalsverðu magni af vatni yfir tiltölulega langan tíma, því það sem þarf í rauninni að gera er að reyna að lyfta grunnvatnsborðinu upp fyrir botn vatnsins.
Sveiflandi vatnshæð
Vatnshæð í Hvaleyrarvatni var mæld af Vatnamælingum Orkustofnunar frá 1999-2001. Verkfræðistofan Mannvit hefur mælt vatnshæð í vatninu síðan í ágúst 2016 og tiltækar mælingar ná til loka apríl 2021.
Hæsta mælda vatnshæð var rúmlega 34 metrar yfir sjávarmáli í apríl 2000 og lægsta vatnshæð var tæplega 32,4 m y.s. í lok sumars 2016. Vatnsstaða í apríl 2021 var rúmlega 32,6 m y.s. og var lág miðað við vatnsstöðuna 5 árin á undan. Miðað við þróun ástands síðan í apríl er talið líklegt að núverandi vatnshæð í vatninu sé komin niður fyrir lægsta mælda gildi.
Ýmsar sögur eru til um sveiflandi vatnsyfirborð og um miðjan sjöunda áratuginn var ekið á vörubíl í fjöruborðinu þegar Skátalundur var byggður sem segir að vatnsyfirborð hafi þá verið mjög lágt. Aðeins eru þrjú ár síðan vatnsstaðan í Hvaleyrarvatni var það há að flæddi yfir göngustíga við vatnið.
Úrkoma undir meðaltali
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni var s.l. vetur þurr og óvenju snjóléttur á höfuðborgarsvæðinu. Úrkomumælingar sýna að mæld mánaðarúrkoma í Reykjavík hefur verið undir meðallagi m.v. meðalmánaðarúrkomu síðustu 64 ára í 7 af síðustu 8 mánuðum fram til júlí sl. Enn fremur, með tveimur undantekningum, hefur úrkoma síðustu 10 mánaða verið undir miðgildi tilsvarandi mánaða ársins síðustu 64 ár
Dæling í Vatnsendakrika
Gagnrýnd hefur verið aukin vatnsdæling í Vatnsendakrika en í fyrri greiningum Vatnaskila var grunnvatnslíkan Vatnaskila notað til að meta áhrif vinnsluaukninga í Vatnsendakrikum. Niðurstöður reikninganna gáfu til kynna að með um 1000 l/s heildarvinnslu úr Vatnsendakrikum (sem er u.þ.b. tvöfalt meira en raunvinnsla árið 2020) er möguleiki á 10-20 cm niðurdrætti við Hvaleyrarvatn. Niðurstöður gáfu einnig til kynna að áhrif vinnsluaukningar í Vatnsendakrikum eru meiri þegar grunnvatnsstaða er lág. Grunnvatnsstaðan er lág núna á öllu höfuðborgarsvæðinu og hefur farið almennt lækkandi síðan vorið 2017 og telja skýrsluhöfundar að lækkandi grunnvatnsstaða sl. 4 ár sé mestmegnis tengd veðurfari á svæðinu.
Telja skýrsluhöfundar að möguleiki sé á að hvoru tveggja, veðurfar og vinnsla úr Vatnsendakrikum, hafi haft áhrif á þróun vatnsstöðunnar í Hvaleyrarvatni undanfarin ár, en ekki sé hægt að fullyrða um það án frekari greiningar.
Dæling í Kaldárbotnum
Vinnsla Hafnarfjarðarbæjar úr vatnsbóli í Kaldárbotnum, sem er nær Hvaleyrarvatni en Vatnsendakrikar, hefur verið frekar stöðug síðan 1997, um 185 l/s að meðaltali. Vinnsluaukning hefur þó átt sér stað síðan 2017 án þess að ársmeðalvinnslan hafi farið yfir sögulegt hámark. Í skýrslunni kemur fram að ekki sé hægt að útiloka án frekari greiningar að vinnsluaukning Hafnarfjarðarbæjar sl. 3 ár hafi haft einhver áhrif á vatnsstöðu í Hvaleyrarvatni, en ætla má engu að síður að veðurfarið vegi þyngst gagnvart þeirri þróun.
Vilja greiningu á grunnvatni í upplandinu
Skýrslan var kynnt á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar í gær og var umhverfis- og veitustjóra falið að óska eftir kostnaðarmati á greiningu á grunnvatni í upplandi Hafnarfjarðar, en sú greining væri ætluð til að auka þekkingu á vatnsbólinu í Kaldárbotnum, vatnstöðu í Hvaleyrarvatni og orsökum fyrir lágri vatnsstöðu í samræmi við þær tillögur sem fram hafi komið í samantekt skýrslunnar.
Skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila má lesa hér.