Í síðustu viku funduðu fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar og Rio Tinto á Íslandi um breikkun Reykjanesbrautar en skv. aðalskipulagi átti Reykjanesbrautin að færast frá álverinu. Var það gert þegar áform voru uppi um stækkun álversins og keypti álverið þá land undir stækkun, land sem nú m.a. liggur undir Reykjanesbrautinni.
Í samtali við Fjarðarfréttir segir Bjarni Már Gylfason hjá Rio Tinto á Íslandi að fyrirtækið hafi átt gott samtal við Hafnarfjarðarbæ í síðustu viku. Var það í fyrsta sinn sem fyrirtækið kemur að borðinu síðan fyrir ári síðan þegar fundað var um vegastæðið. Upplýst hafði verið að ýmsir aðrir kostir hafi verið því fylgjandi að vegurinn yrði færður fjær álverinu.
Ekkert samkomulag var undirritað á fundinum sl. föstudag en Bjarni Már segir það hafa verið sameiginlegur skilningur manna á hagkvæmast væri að breikka Reykjanesbrautina í núverandi vegstæði en um leið að tryggð verði góð aðkoma að athafnasvæði álversins og Straumsvíkurhöfn sem er í eigu Hafnarfjarðarbæjar.
Tengdar fréttir:
Samþykkt að vinna að breytingu á aðalskipulagi svo tvöfalda megi Reykjanesbraut í núverandi vegstæði