fbpx
Mánudagur, júlí 15, 2024
HeimFréttirÍbúar áhyggjufullir af áætluðu niðurdælingarverkefni Coda Terminal

Íbúar áhyggjufullir af áætluðu niðurdælingarverkefni Coda Terminal

Íbúar hafa stofnað Facebook hópinn Mótmælum staðsetningu Coda Terminal við íbúabyggð í Hafnarfirði og hrundið af stað undirskriftasöfnun á Island.is

Þegar þetta er skrifað hafa 1.777 skrifað sig á listann en um 2.400 manns eru í mótmælahópnum.

Mótmæla staðsetningu borteiga og vilja a.m.k. íbúakosningu

Á undirskriftalistanum segir: „Við undirrituð mótmælum staðsetningu á borteigum Coda Terminal – Carbfix í Hafnarfirði. Þar er á ferðinni óvenjulegt og stórt tilraunaverkefni en til stendur að flytja til landsins CO2 sem á uppruna sinn erlendis og dæla því niður í berglög innan bæjarmarka. Óvissa ríkir um árangur og afleiðingar verkefnisins á íbúa í bænum og náttúrufar. Við teljum ótækt að slíkar tilraunir og starfsemi fari fram svo nærri íbúabyggð og skorum á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að hverfa frá áætlunum, eða í það minnsta leggja ákvörðunina um áframhaldandi verkefni í hendur bæjarbúa með íbúakosningu.“

Carbfix opnaði upplýsingasíðu

Carbfix hefur stofnað Facebook hópinn Coda Terminal í Straumsvík – Upplýsingasíða og umræður þar sem hægt er að varpa fram spurningum og fá skýringar á verkefninu. Síðan var svar við íbúasíðu sem mótmælir áformunum en forsvarsmenn síðunnar vildu ekki að Coda Terminal væri á þeirri síðu en kynntu engu að síður Facebooksíðu Coda Terminal.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði Coda Terminal (niðurdælingarsvæði táknað með grænni punktalínu og hafnarsvæði táknað með blárri punktalínu). Á kortinu má sjá hugsanlegar staðsetningar borteiga og fyrirhugaða legu lagna ásamt vegslóða að þeim. Staðsetning borteiga, lagna og vegslóða kann að hliðrast til við endanlega hönnun þeirra. Framkvæmdasvæðið nær til þess svæðis sem mannvirki framkvæmdarinnar falla undir, en gert er ráð fyrir að svæði sem raskast muni að hámarki ná 15 m út fyrir miðlínu lagnabeltis og lóðir borteiga. Staðsetning geymslutanka er sýnd sem blár hringur. Kort: EFLA, 2024.

Hverju hafa íbúarnir áhyggjur af?

Mótmælin beinast fyrst og fremst að þeirri óvissu sem birtist í umhverfismatinu og samráðsleysi að sögn viðmælanda Fjarðarfrétta. Umhverfismatsskýrsluna má sækja hér.

Fólk getur gert athugasemdir við umhverfismatsskýrsluna og skulu umsagnir berast í gegnum Skipulagsgátt eigi síðar en 5. júlí 2024.

Áhrif á grunnvatn og jarðskjálftavirkni

Nefnir fólk m.a. annars óvissu vegna mögulegrar jarðskjálftavirkni og áhrif á grunnvatnsstöðu.

Breytingar á grunnvatnsborði í 4. áfanga samkvæmt líkanreikningum. Af mynd sést að líkanreikningar gefa til kynna allt að 15–20 cm niðurdrátt í kringum vatnstöku- og niðurdælingarholur framkvæmdaaðila. Einnig er allt að 30–40 cm hækkun á grunnvatnshæð til austurs af svæðinu, en ólíklegt er að vatnshæð í vötnum á sama svæði aukist verulega við þessa hækkun þó gegnumrennsli í þeim gæti aukist.

Í umhverfismatsskýrslunni segir m.a.: „Niðurdæling á CO2 leystu í vatni getur valdið spennubreytingum í jarðskorpunni á geymslusvæðinu og þannig haft áhrif á jarðskjálftavirkni á svæðinu.“ Þá segir einnig: „Áhrifasvæði með tilliti til upptaka jarðskjálfta er framkvæmdasvæði Coda Terminal, nánar tiltekið í og við borteiga þar sem niðurdæling fer fram. Möguleg áhrif af völdum örvaðrar jarðskjálftavirkni geta þó náð út fyrir framkvæmdasvæðið ef jarðskjálftar eru þess eðlis að hægt sé að finna fyrir þeim langt frá upptökum þeirra, en ekki er gert ráð fyrir að áhrifin nái út fyrir 2 km fjarlægð frá niðurdælingarholum.“

Þó segir í skýrslunni að möguleg áhætta sé óveruleg en það er einmitt það sem margir íbúar hafa áhyggjur af þar sem niðurdælingarholur eru í innan við eins kílómetra fjarlægð frá íbúðarhúsum. Endanleg staðsetning á niðurdælingarholum hefur þó ekki verið tekin.

224 síðna skýrsla

Í lok skýrslunnar segir: „Það er niðurstaða Carbfix að heildaráhrif Coda Terminal séu ekki umtalsverð í skilningi laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.“

Umhverfismatsskýrslan er 224 síðna skjal í heild og mikil lesning. Er fólk samt hvatt til að kynna sér hana vel.

Samþykkt að auglýsa skipulagsbreytingar vegna verkefnisins

Bæjarstjórn samþykkti í gær að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 vegna borteiga og einnig tillögu að deiliskipulagi borteiga í sunnanverðu Kapelluhrauni. Þá samþykkti bæjarstjórn í gær að auglýsa tillögu að breytingu á aðalskipulagi Straumsvíkurhafnar vegna stækkunar og að kynna tillögu á vinnslustigi samhliða kynningu umhverfismatsskýrslu. Einnig var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Rauðamelsnámu vegna efnistöku fyrir nýja Straumsvíkurhöfn og tillögu að breytingu á deiliskipulagi Straumsvíkur vegna stækkunar hafnarinnar.

Valdimar Víðisson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs lét bóka á fundinum að framangreind skipulagsbreyting væri gerð til að undirbúa mögulega starfsemi Coda Terminal í Hafnarfirði. Hún væri þó engan veginn staðfesting á að af verkefninu verði.

Kynningarfundur um hafnargerð í Straumsvík

Í dag kl. 17 verður kynningarfundur í veislusal Hauka á Ásvöllum þar sem umhverfismat á stækkun hafnar í Straumsvík og tillaga að skipulagsbreytingum verður kynnt.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2