Icelandair Group skrifaði í dag undir samning við fasteignafélagið Reiti um sölu á skrifstofuhúsnæði félagsins að Nauhólsvegi 50 við Reykjavíkurflugvöll. Söluverðið er tæplega 2,3 milljarðar króna og verður nýtt til uppgreiðslu áhvílandi láns á fasteigninni sem og til styrkingar lausafjárstöðu.
Icelandair mun þó leigja húsnæðið af Reitum undir núverandi starfsemi til þriggja ára eða til loka árs 2023.
Þá mun félagið flytja starfsemi sína á Flugvelli í Hafnarfirði þar sem félagið er nú þegar með hluta starfseminnar. Stefnir félagið að því að byggja við núverandi húsnæði á Flugvöllum svo að sameina megi starfsemi félagsins á einum stað í Hafnarfirði.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, seigr í tilkynningu að með sölunni nái félagið fram rekstrarhagræðingu og styrki lausafjárstöðu sína en hvort tveggja komi sér vel á þessum krefjandi tímum.
„Þá er spennandi að hefja uppbyggingu á nýjum höfuðstöðvum sem munu taka mið af þörfum starfseminnar nú og til framtíðar og mun reynsla okkar af sveigjanlegu vinnufyrirkomulagi á þessu ári án efa nýtast við skipulag og hönnun húsnæðisins. Ég tel að sameining starfsstöðva okkar á höfuðborgarsvæðinu muni án efa stuðla að öflugra samstarfi milli deilda, meiri starfsánægju og auknum árangri. Það verður jafnframt ótvíræður kostur að færa höfuðstöðvar félagsins nær Keflavíkurflugvelli,“ segir Bogi.