Skólasamfélag Hraunvallaskóla fagnaði og vakti athygli á „degi gegn einelti“ með því að kærleiksknúsa skólann sinn. Þannig tóku nemendur, starfsfólk og aðrir aðstandendur sig til snemma í morgun og tóku utan um skólann með því að búa til samfellda keðju hringinn í kringum skólann. Með þessari táknrænu athöfn vildi skólasamfélagið sýna skólanum sínum og samfélaginu öllu væntumþykju og hlýju. Um leið er minnt á mikilvægi vináttu og jákvæðra samskipta.
Vika virðingar, umhyggju og kærleiks
Þessa dagana stendur fyrir Vinavika í grunnskólum Hafnarfjarðar sem hver og einn grunnskóli útfærir með sínum eigin einstaka hætti. Vinavika er tilkomin vegna Dags gegn einelti þann 8. nóvember ár hvert sem helgaður er baráttunni gegn einelti. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og er skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti.
Í tilefni vinaviku er m.a. víða blásið til vinaleika þar sem nemendur á öllum aldri vinna saman í hópum og leysa sameiginlega þrautir og verkefni á fjölbreyttum stöðvum. Stöðvarnar, sem hannaðar eru og skipulagðar af nemendunum sjálfum, má m.a. spila Olsen Olsen, Lúdó og Yatzy, skella sér í slökun, fá kennslu á klukku og að reima skó, fara í snú snú og Tetris, finna samheiti á íslensku og dönsku og gera laufblöð á vinatré svo fátt eitt sé nefnt.
Vinaleikarnir eru hugsaðir sem góð og skemmtileg tilbreyting í skólastarfið sem gerir nemendur kleift að kynnast hver öðrum utan bekkjarins og milli árganga. Vinaleikarnir ganga líka út á það að sýna að allir hafa sínar sterku hliðar og eiga að fá tækifæri til að njóta á sínum eigin forsendum.
Elstu nemendurnir hugsa vel um þá yngstu í sínum hópi, leiðbeina þeim og sýna þeim virðingu, umhyggju og kærleik. Plúsinn er að starfsfólk fær í gegnum vinaleika einnig tækifæri til að kynnast öllum nemendum skólans, ekki bara sínum árgöngum.