Í vor ákvað stjórn Siglingaklúbbsins Þyts að blása lífi í kajakstarfsemi hjá klúbbnum.
Félagsróður er nú einu sinni í viku og þannig er reynt að virkja áhugasama kajakræðara en kajakróður hefur legið í láginni hjá félaginu síðustu ár að sögn Markúsar Péturssonar formanns Þyts.
„Félagsróðrarnir eru hugsaðir frá einni upp í þrjá klukkustundir en það fer eftir veðri og getu ræðara sem mæta. Róðrarnir eru fyrir alla, ekki bara meðlimi Þyts,“ segir Markús.
Á miðvikudögum á sumrin en sunnudagmorgnum á veturna
Mæting er í aðstöðu Þyts kl. 18 á miðvikudögum í sumar en kl. 11 á sunnudagsmorgnum í vetur. „Klúbburinn lánar vesti og báta en ekki er nauðsynlegt að eiga blaut- eða þurrgalla, en það er kostur,“ segir Markús. Í klúbbhúsinu eru búningsklefar með sturtu og kaffistofu.
„Róið er um nágrenni klúbbsvæðisin en einnig æfum við félagabjörgun, sjálfsbjörgun og róðrartækni. Hægt að er að biðja um veltukennslu og fer hún þá fram á öðrum tímum. Jón Kristinn Þórsson, formaður kajakdeildar klúbbsins ásamt Gísla Friðrikssyni sjá um róðrana, en Gísli var fyrstur Íslendingurinn að róa kajak hringinn í kringum Ísland.“
Að sögn Markúsar er kajakfloti klúbbsins samanstendur af um tíu Costco kajökum, þrem SOT- og fjórum sjókajökum. „Í sumar hefur aðsóknin verið góð og hefur myndast kjarni sem kemur reglulega í róðra. Fjölskyldur hafa mætt til að prófa og var yngsti þátttakandinn í róðri 11 ára.
Öryggið í fyrirrúmi
Á æfingu sl. miðvikudag var áhugasamur hópur mættur. Sumir voru vanir kajakræðarar en aðrir voru að prófa í fyrsta sinn. Það vakti athygli að fólk var af mörgum þjóðernum en allir höfðu mikinn áhuga á kajakróðri.
Farið var vel yfir öryggisatriði áður en farið var af stað og kynnti Gísli m.a. hvernig bregðast eigi við velti maður bátnum, hvort sem maður er einn eða með öðrum. Allir sigla í þurrbúningum og sýnd var öryggislína sem koma á í veg fyrir að bátinn reki frá falli ræðari í sjóinn.
Eftir góða kynningu var siglt út að Langeyrarmölum og í víkinni norðan við Rauðsnef prófuðu ræðararnir að komast upp í bátinn sinn aftur.
Veðrið lék við ræðarana og sjá má fjölda mynda hér fyrir neðan sem ljósmyndari Fjarðarfrétta tók.
Eitt fjölskyldugjald
Klúbburinn býður upp á geymslupláss fyrir kajaka. Klúbburinn á einn gám fyrir geymslu en til stendur að fá annan. Gámarnir eru ekki hugsaðir sem ódýr geymsla fyrir báta heldur eru gerðar kröfur að menn rói reglulega. Ef þú hefur áhuga á að kynnast kajaksportinu en veist ekki hvernig á að byrja þá hvetjum við þig til að mæta í félagsróðra hjá siglingaklúbbnum Þyt,“ segir Markús formaður Þyts.
Hægt er að skrá sig í klúbbinn á sailing.is og er aðeins eitt gjald fyrir alla fjölskylduna, 9.000 kr.
Hægt er að nálgast upplýsingar á facebook, Þytur kajakdeild, og á heimasíðu Þyts, sailing.is