
Stóra upplestrarkeppnin var haldin í Víðistaðakirkju í gær og kepptu 18 nemendur 7. bekkja grunnskólanna í Hafnarfirði til úrslita í upplestri.
Skáld keppninnar í ár voru þær Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson var ljóðskáld keppninnar.

Dómnefnd skipuð þeim Björk Einarsdóttur, Almari Blæ Sigurjónssyni, Hafrúnu Dóru Júlíusdóttur og Þórði Helgason fékk svo það erfiða hlutverk að velja þá lesendur sem lentu í þremur efstu sætunum.
Ingibjörg Einarsdóttir var kynnir og stjórnandi hátíðarinnar en hátíðin hófst með flutningi Talkórs nemenda 4. bekkjar Áslandsskóla og ávarpi forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni.

Emil Arthúr Júlíusson, sigurvegari keppninnar 2022 kynnti skáld keppninnar en í 1. umferð lásu nemendur kafla úr bókinni Blokkin á heimsenda eftir þær Arndísi og Huldu Sigrúnu.
Lestur nemendanna var glæsilegur og ljóst var að hlutverk dómnefndarinnar yrði erfitt.
Verðlaun fyrir mynd á boðskort keppninnar

Tilkynnt var um sigurvegara í keppni um mynd á boðskort keppninnar sem var Aldís María Antonsdóttir úr 6. bekk í Hraunvallaskóla.

Þá las Lazar Velemir ljóð á serbnesku og eftir stutt hlé flutti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri ávarp.

Vilhjálmur Hauksson, sem varð í 2. sæti keppninnar í fyrra kynnti svo ljóðskáld keppninnar en í 2. umferð lásu nemendur ljóð eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og höfðu úr 10 ljóðum að velja.
Í 3. umferð lásu nemendurnir svo ljóð að eigin vali.
Smásagnasamkeppni
Á meðan dómnefndin bar saman bækur sínar voru afhent verðlaun í smásagnakeppni grunnskólanna.

Í þriðja sæti varð Sunna Björk Magnúsdóttir úr 8. bekk Víðistaðaskóla. Í öðru sæti varð Helena Björg S. Arnarsdóttir úr 8. bekk Víðistaðskóla en sigurvegari í smásagnakeppninni var Amra Bajramovska úr 9. bekk í Víðistaðaskóla.

Viðja Elísabet Magnúsdóttir, nemandi í Tónlistarskóla Hafnarfirði lék svo á flygil fyrir viðstadda áður úrslitin voru kynnt. Lék hún Vals Macabre eftir Faber.
Úrslit

Í þriðja sæti varð Reynir Örn Sigrúnarson úr Setbergsskóla
Í öðru sæti varð Soffía Karen Björnsdóttir úr Hraunvallaskóla
Í fyrsta sæti varð Karen Hrönn Guðjónsdóttir úr Áslandsskóla.
Myndasyrpa



















