Bæjarráð veitir ár hvert félagasamtökum, fyrirtækjum eða einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur og forgangsröð sveitarfélagsins. Úthlutun styrkja fer fram tvisvar á ári og fyrri umsóknarfrestur ársins var til 19. mars sl.
Umsækjendur verða að tengjast Hafnarfirði með einhverjum hætti. Til dæmis með fastri búsetu einstaklinga, með því að viðburðurinn eða verkefnið sem styrkt er fari fram í Hafnarfirði og/eða feli í sér kynningu á einhverju sem viðkemur sveitarfélaginu. Stofnun, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar geta aðeins sótt um einu sinni á ári og eru viðburðir eða verkefni ekki styrkt eftir á.
Bæjarráð afgreiddi á fundi sínum í síðustu viku „að svo stöddu“ aðeins tvær umsóknir en skv. upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ sóttu Píeta samtökin og Morning Coffee Concerts in the Shed einnig um.
Í fundargerð bæjarráðs segir aðeins um styrkþegana:
Karlar í skúrum kr. 500.000.-.
Stækkun á kennsluaðstöðu fyrir skapandi listgreinar kr. 500.000.-.
Fjarðarfréttir óskaði eftir nánari upplýsingum um styrkþega og m.a. er upplýst um styrkþegana:
Karlar í skúrnum, Hafnarfirði, er stofnað 2018 af Rauða krossi Íslands en hefur frá áramótum starfað sem sjálfstætt félag. Umsækjandi er Jón Bjarni f.h. Karlar í skúrum
Listakonan Heiðdís Helgadóttir hefur staðið fyrir námskeiðum fyrir börn í myndlist og teikningu síðastliðin tvö sumur. Mikil aðsókn hefur verið á námskeiðin og koma þátttakendur aðallega úr Hafnarfirði en einnig af stór-höfuðborgarsvæðinu. Síðastliðið haust stofnaði Heiðdís Listasmáskólann sem bauð upp á kennslu yfir vetrartímann þar sem börn sækja kennslu vikulega í 10 vikur. Styrk bæjarráðs er ætlað að bæta aðstöðu, stækka vinnusvæði og aðgengi fyrir nemendur.