Bæjarráð samþykkti í morgun að kaupa eignarhluta Sjónvers ehf. í Lækjargötu 2, þar sem Dvergur hf., Flygering & Co var áður til húsa. Kaupverðið er 120 milljónir kr. sem greitt er í einu lagi við undirritun kaupsamnings. Bæjarráð samþykkti einnig viðauka við fjárhagsáætlun þessa árs þar sem ákveðið er að nota 120 millj. kr. af upphæð sem verja átti til uppbyggingar á grunnskóla í Skarðshlíð en áætlað er að framkvæmdir sem áætlaðar voru á þessu ári verði ekki fyrr en á næsta ári.
Fasteignamat eignarhlutans er aðeins 73,65 millj. kr. og brunabótamatið 94,35 milljónir kr. Húsnæðið er í lélegu ásigkomulagi enda hefur viðhald þess verið nánast ekkert í fjölmörg ár.
Eignarhlutarnir sem Hafnarfjörður kaupir eru vesturendi hússins, 237 m² á jarðhæð, skráð sem iðnaðarhúsnæði auk 90 m² skrifstofuhúsnæðis og 344,7 m² skrifstofuhúsnæði á 2. hæð. Húsið allt er 2.221 m² að stærð á þremur hæðum og seldur eignarhlutur því um 30% af eigninni.
Til stendur að rífa húsið og byggja á svæðinu en haldin var samkeppni um nýtingu á lóðinni fyrir nokkrum árum.
Er þetta endanleg ákvörðun þar sem bæjarstjórn er farin í sumarfrí.
Ljósmyndir: Guðni Gíslason