Bæjarstjórnarfundur hófst kl. 17 í dag þar sem allir aðalbæjarfulltrúar voru mættir, Guðlaug kom inn úr sínum samþykktu forföllum sem samþykkt voru á síðasta fundi án nokkurra skýringa og Einar Birkir Einarsson situr sem fastast þó hann sé fluttur í Kópavog.
Fundurinn hófst á því að lagað var klúður frá síðasta fundi þar sem átti að skipta út varafulltrúa í fræðsluráði. Sitjandi varafulltrúi óskaði lausnar þar sem hann hafi skipt um stjórnmálaflokk og annar átti að koma í staðinn. Þess í stað var hinn nýi fulltrúi samþykktur sem aðalmaður sem auðvitað var ekki hægt.
Þá lagði Guðlaug til breytingar í skipulags- og byggingarráði en það mál var ekki á útsendri dagskrá og ekki var óskað eftir að taka málið inn með afbrigðum.
Breytingarnar fólust í því að bola út kjörnum fulltrúum, þeim Borghildi Sölvey Sturludóttur og Pétur Óskarsson úr ráðinu og setja inn í þess stað Helgu Björgu Arnardóttur sem var varamaður og Hörð Svavarsson.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi gerði athugasemdir við þessa afgreiðslu sem hann taldi að samrýmdist ekki lög og vísaði til úrskurðar umboðsmanns Alþingis.
Forseti óskaði eftir fundarhléi og var gestum vísað úr salnum. Greinilega gekk mikið á í meira en klukkutíma löngu hléi þar sem hávaði barst út frá salnum og ljóst að bæjarfulltrúar öskruðu á hvern annan.
Eftir fundarhlé var tillagan lögð fram og samþykkt með 7 atkvæðum en fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sátu hjá og létu bókað að þau gætu ekki tekið afstöðu til tillögunnar eins og hún væri borin fram.
Sama gilti um tillögu um breytingu í hafnarstjórn. Þar var Borghildur Sölvey Sturludóttir sett út og Karólína Helga Símonardóttir kom inn sem aðalmaður. Þá var Pétur Óskarsson settur út sem varamaður og Hulda Sólveig Jóhannsdóttir kom inn sem varamaður.