fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirKláruðu Ratleikinn í einni ferð – 62 km göngu

Kláruðu Ratleikinn í einni ferð – 62 km göngu

Fólk tekur þátt í Ratleik Hafnarfjarðar á mjög mismunandi forsendum

Bræðurnir Árni Már og Jón Þór Sturlusynir áttuðu sig á því í byrjun september að þeir voru ekki farnir að hefja leik í Ratleik Hafnarfjarðar þetta árið en síðasti möguleiki á að senda inn úrlausnir var 21. september.

Þeir brugðu þá á það ráð að undirbúa ferðina vel, skoða kort og gera leiðaráætlun og héldu svo af stað, síðustu keppnishelgina, með það að markmiði að klára leikinn í einni ferð.

Hér má sjá hvernig þeir bræður hafa dregið stystu línu á milli staða og svo má sjá leiðina sem þeir fóru.

„Skemmst er frá því að segja að allt gekk að óskum og allir póstarnir fundist,“ segir Jón Þór. „Að vísu kostaði þetta 62 km labb yfir úfið hraun og lúpínuskóga. En skemmtilegri áskorun er vart hægt að finna sér,“ sagði Jón Þór hæstánægður með dagsverkið.

Sagði Jón Þór í samtali við Fjarðarfréttir að þetta hafi verið þrælskemmtilegt! Þarna hafi verið hægt að tengja saman áhuga á hreyfingu, löngum ferðum í bland við tölvunördaskapinn en hann notaði forrit til að reikna út stystu mögulega leið til að ná öllum merkjunum.

Jón Þór segir allt annað að hafa haft bróður sinn með, en hann hafi líka ætlað að koma með fyrir tveimur árum en hafi þá forfallast á síðustu stundu. Hann segir að greiðlega hafa gengið að finna merkin, þó brösulega hafi tekið að finna fyrsta merkið við Hvaleyrarlón. Það var ekki nákvæmlega þar sem það var merkt á kortinu (fuglavernd hamlaði að það yrði sett lengra út á tangann) en blasti svo við þegar þeir bræður snéru sér við. Einnig segir hann að erfitt hafi verið að finna merki í stríðsminjunum á Flóðahjalla/Hádegisholti, sunnan Elliðavatnsvegar. Þá hafi verið farið að dimma, lúpínan var djúp og þeir voru ekki á neinum stígum. Þá eru stríðsminjarnar nokkuð stórar, „en allt gekk þetta að lokum greiðlega,“ segir Jón Þór sem oft áður hefur tekið þátt í Ratleik Hafnarfjarðar en ekki alltaf skilað inn lausnum.

Farið var að dimma töluvert þegar þeir fundu átta síðustu merkin en þeir segja að leitin hafi samt gengið greiðlega enda voru þeir vel búnir með góð ljós.

Vistum höfðu þeir komið fyrir við gatnamót Krýsuvíkurvegar og Bláfjallavegar en þar höfðu þeir reiknað með að vera nálægt hádegi. Þar voru þeir með mat og þurra hlýja sokka.

Þeir bræður fengu ágætis veður á leiðinni að þeirra sögn, örlítið rigndi um morguninn en annars hélst þurrt en vindur var nokkur á leiðinni sem var á stundum erfið yfirferðar, í gegnum úfið hraun og þykkt kjarr að fara. Hins vegar nýttu þeir sér þá stíga og slóða sem hægt var á leiðinni.

Árni Már rýnir í Ratleikskortið

Þess má geta að Jón Þór lék sama leikinn fyrir tveimur árum en flestum þykir hæfilegt að nýta sumarið til að klára leikinn.

Ferðin tók 18 tíma og þeir komust ekki hjá því að lenda í myrkri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2