Boðað var til fundar í bæjarráði á óhefðbundnum tíma föstudaginn 13. maí kl. 10 og skv. upplýsingum Fjarðarfrétta barst fundarboð 3 mínútum eftir áskyldan fyrirvara.
Fundinn sátu:
- Ágúst Bjarni Garðarsson formaður,
- Kristinn Andersen varaformaður,
- Ólafur Ingi Tómasson aðalmaður,
- Adda María Jóhannsdóttir aðalmaður,
- Jón Ingi Hákonarson aðalmaður,
- Sigurður Pétur Sigmundsson varamaður,
- Sigurður Þórður Ragnarsson áheyrnarfulltrúi,
Auk framangreindra sátu fundinn Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Sigurður Nordal sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.
Á fundinum voru 5 mál tekin fyrir á þessum síðasta degi fyrir kosningar.
Fyrst voru teknir fyrir bæjarráðsstyrkir þar sem 1,3 milljónir kr. til þriggja aðila.
Þar næst samþykkti bæjarráð að afsala sér forkaupsrétti á fiskiskipinu Guðrúnu BA 127 en hafnfirska Útgerðarfélagið Dagný ehf. átti skipið og var að selja það úr bænum. Í slíkum tilfellum á sveitarfélag seljanda forkaupsrétt.
Þriðja mál á dagskrá var endurnýjun á þjónustusamningi við Fjölmiðjuna sem gerður var við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Er viðbótarframlagið 11,5 milljónir og hlutdeild Hafnarfjarðar í því 1.495.000 kr. Heildarframlag sveitarfélaganna hækkar því um nálega 105% frá gerð samningsins 2020.
Þá kom að tveimur málum sem hafa nokkuð verið til umræðu, sérstaklega vegna skorts á formlegum heimildum en bæjarráð heimilaði á fundi sínum 3. maí sl. að veita heimild til að undirbúa útboð vegna byggingar reiðskemmu Sörla og knatthúss Hauka. Það hefur því ekki tekið nema rúma viku að undirbúa útboðin en Fjarðarfréttir hefur mjög áreiðanlegar heimildir fyrir því að sú undirbúningsvinna hafi þegar verið hafin á framkvæmdasviði Hafnarfjarðarbæjar.
Samþykkt að bjóða út 3,9 milljarða kr. verk án þess að fjármögnun hafi verið samþykkt
Nú, rúmri viku síðar samþykkti bæjarráð að ráðist verði í útboð á 1. áfanga reiðhallar Sörla í samræmi við fyrirliggjandi útboðs- og verkskilmála. Við útboðið áskilur sveitarfélagið sér rétt til þess að hafna öllum tilboðum yfir framlagðri kostnaðaráætlun. Það verði nýkjörinnar bæjarstjórnar að taka afstöðu til þess hvort og þá hvaða tilboði verður tekið að afloknu útboði.
Nákvæmlega sama form var á samþykkt bæjarráðs á útboði á 1. áfanga knatthúss Hauka.
Það verður því nýkjörin bæjarstjórn sem tekur málið fyrir enda málinu vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar og orðalagið því sérstakt, enda verður það svo sú sama bæjarstjórn sem eðlilega tekur afstöðu til þess hvaða tilboði verði tekið að loknu útboði eða hafni þeim öllum.
Afstaða fulltrúa minnihlutaflokkanna
Fulltrúi Viðreisnar, Jón Ingi Hákonarson, gerði enga athugasemd við málsmeðferðina og samþykkti báðar tillögurnar.
Sigurður Þ. Ragnarsson, fulltrúi Miðflokksins sagði mikilvægt að afstaða flokka í núverandi bæjarstjórn til þessa máls sé ljós, enda komi það í hlut nýkjörinnar bæjarstjórnar að samþykkja útboðið endanlega. Hann lýsti undrun sinni á að afgreiða svo stórt mál í bæjarráði, daginn fyrir kosningar.
Aðferð meirihlutans harðlega gagnrýnd
Sigurður P. Sigmundsson, fulltrúi Bæjarlistann sagðist í bókun mótmæla harðlega þeirri aðferð bæjarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að taka til afgreiðslu í bæjarráði degi fyrir sveitarstjórnarkosningar tillögu um að farið verið strax í útboð á framkvæmdum við knatthús Hauka og reiðskemmu Sörla. Segir hann ekki tímabært að taka þessa ákvörðun og ekki rétt stjórnsýslulega séð að binda hendur næstu bæjarstjórnar með þessum hætti. Réttara væri að bæjarstjórn taki málið til afgreiðslu og þannig myndu allir bæjarfulltrúar fá tækifæri til að taka þátt í umræðum og afgreiðslu.
„Þá skal á það bent að umhverfismat um byggingu knatthússins mun ekki liggja fyrir fyrr en í ágúst eða september 2022. Að samþykkja útboð með fyrirvara um niðurstöðu umhverfismatsins er ekki góð stjórnsýsla. Þá er nokkuð ljóst að ekki verður hægt að hefja jarðvinnu á starfssvæði Sörla fyrr en í september 2022. Það er sem sagt ekkert sem kallar á það að bjóða þessi verkefni út núna.“
Áætlaður heildarkostnaður knatthúss Hauka er 3,2 milljarðar kr.
Sigurður segir að ekki liggi fyrir áætlun um það hvernig fjármagna skuli þessi verkefni. Engar tölur hafa verið birtar um kostnaðinn en í bókun Bæjarlistans segir að fyrsti áfangi knatthússins muni kosta 2,8 milljarðar kr. skv. áætlun. Heildarkostnaður við knatthúsið er áætlaður 3,2 milljarðar kr. skv. upplýsingum Sigurðar. Fyrsti áfangi reiðskemmunnar kostar 1,1 milljarð kr. samkvæmt áætlun og heildarkostnaðurinn er áætlaður 1,3 milljarðar kr. Samtals var verið að samþykkja að fara í útboð fyrir verk sem áætlað er að kosta 3,9 milljarða kr. en heildarkostnaður beggja er áætlaður um 4.500 milljónir króna.
Fjárfestingarætlanir gera ráð fyrir 430 milljónum á þessu ári og 800 milljónum næstu 5 ár til bygginga íþróttamannvirkja
Í fjárfestingaráætlun 2022-2025, sjá greinargerð með fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2022, eru áætlaðar 350 milljónir kr. til knatthúss Hauka og 80 milljónir kr. til reiðskemmu Sörla, samtals 430 milljónir kr. á árinu 2022. Á árunum 2023-2025 eru áætlaðar 800 milljónir kr. á hverju ári til fjárfestingaverkefna íþróttafélaga, samtals um 2.400 milljónir kr.
„Það liggur því fyrir að ekki er búið að tryggja fjármögnun til þessara verkefna. Ef þessar fjárfestingar eru ekki innan fjárhagsáætlunar þarf viðauka við fjárhagsáætlun, sem bæjarráð þarf að vísa til bæjarstjórnar til samþykktar,“ segir Sigurður Pétur og áréttar að þessi gjörningur útiloki 2 af 4 minnihlutaflokkunum frá því að taka formlega afstöðu, þar sem tillagan er sett fram í bæjarráði þar sem ekki allir hafa atkvæðisrétt. „Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þessi meirihluti hagar sér svona í sambærilegum málum“, segir Sigurður að lokum í bókun sinni.
Samþykkti en sagði aðgerðina dansa á línu þess löglega
Adda María Jóhannsdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar samþykkti auglýsingu útboðs en sagði athyglisvert að meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks ætli að enda kjörtímabilið með sama hætti og þeir hófu það, með því að dansa á línu þess löglega við afgreiðslu mála er varða uppbyggingu íþróttamannvirkja.
Fundarboð með of stuttum fyrirvara?
Adda segir í bókun að fundarboð fyrir fundinn hafi verið sent út með minnsta löglega fyrirvara, á óhefðbundnum fundartíma, þegar umboð fráfarandi fulltrúa er um það bil að renna út. Blaðamaður hefur hins vegar upplýsingar frá tveimur fundarmönnum að fundarboðið hafi borist 3 mínútum eftir að fresturinn rann út.
„Það er augljóst að taugaveiklun er í hópi fulltrúa meirihlutans á síðustu metrum kosningabaráttunnar enda ekki verið staðið við fögur fyrirheit. Knatthús Hauka og reiðhöll Sörla hafa enn ekki risið,“ sagði Adda María.
Óútfylltur tékki
„Með þessari tillögu er enn verið að gefa innihaldslaus loforð og óútfylltur tékki sendur áfram á nýja bæjarstjórn. Umhverfismat vegna knatthúss á Ásvöllum hefur ekki verið lokið og fyrirvari gerður um það í útboðsgögnum. Þá hefur heldur ekki fyllilega verið gert ráð fyrir fjármögnun þessara verkefna í gildandi fjárhagsáætlun og ekki verið gerður viðauki vegna útboðanna. Skv. sveitarstjórnarlögum er óheimilt að víkja frá fjárhagsáætlun nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka, sem geri grein fyrir breytingum á útgjöldum og skuldbindingum.“
Benti hún á að fyrir um það bil einu ári hafi bæjarstjóri tekið fyrstu skóflustungu að knatthúsi Hauka og að formaður bæjarráðs hafi gert slíkt hið sama að reiðhöll Sörla. Ekkert hafi hins vegar gerst fyrr en nú þegar málið er sett á dagskrá á lokametrum kosningabaráttunnar. „Hér er um sýndartillögu að ræða til að slá ryki í augu kjósenda,“ sagði Adda María í lok bókun sinnar.