fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirKnattspyrnufélagið Haukar 90 ára - Fyrsta skóflustungan tekin að knatthúsi

Knattspyrnufélagið Haukar 90 ára – Fyrsta skóflustungan tekin að knatthúsi

Það var stór dagur á Ásvöllum sl. mánudag þegar Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, tók fyrstu skóflustunguna að knatthúsi í fullri stærð á 90 ára afmælisdegi Knattspyrnufélagsins Hauka.

Auk hennar heiðruðu fulltrúar bæjarstjórnar og fleiri Haukana í fremur látlausri athöfn vegna fjöldatakmarkana.

Fulltrúar bæjarins og Hauka við skóflustunguna á 90 ára afmælisdeginum.

„Það er ljóst að stuðningur bæjaryfirvalda í íþróttabænum Hafnarfirði hefur reynst okkur í Haukum gríðarlega mikilvægur og erum við afar stolt af þeim mannvirkjum sem nú þegar hafa verið reist á Ásvöllum. Með nýju knatthúsi og nýju grasæfingasvæði verður svo aðstaðan fyrir knattspyrnudeildina afar glæsileg,“ segir í tilkynningu frá Haukum.

Haukafólk segir spennandi 90 ára afmælisár vera framundan og að afmælinu verði fagnað er líða tekur á árið þegar skilyrði í samfélaginu verða hagstæðari fyrir veisluhöld.

Upphaf knattspyrnu í Hafnarfirði

Upphaf knattspyrnu í Hafnarfirði má rekja til ársins 1908 er Knattspyrnufélagið  Kári var stofnað. Æfði liðið á Víðistaðatúni og fyrsti boltinn var heimatilbúinn.

Fleiri knattspyrnufélög voru svo stofnuð eftir að Kári lagði upp laupana haustið 1917, m.a. Framsókn og 17. júní sem stofnuð voru 1919. Sumarið 1926 sameinuðust þessi félög svo í einu liði sem nefnt var Knattspyrnufélag Hafnarfjarðar. Lagðist svo Framsókn af sama ár og 17. júní sumarið eftir.

Sumarið 1928 stofnuðu 11 ungir strákar Knattspyrnufélagið Þjálfa en strákarnir stunduðu einnig frjálsar íþróttir. Óx mikill áhugi unglinga á íþróttum eftir að Hallsteinn Hinriksson kom til starfa í Hafnarfirði sumarið 1929. Ekki er vitað hvenær Þjálfi lagði upp laupana en erfiðleikar með að fá lagfæringu á knattspyrnuvellinum á Hvaleyrarholti gerði félaginu mjög erfitt fyrir.

Aðdraganda stofnunar Knattspyrnufélagsins Hauka má rekja til þess að víða um bæinn voru til strákafélög og víða var æft. Sófus Berthelsen rifjar upp aðdraganda að stofnun Hauka í 60 ára afmælisriti félagsins en þá hafði hópur drengja ætlað að byggja fótboltavöll í stórri gjótu þar sem Hvalur stendur nú við Reykjavíkurveginn. En það fór á annan veg en strákarnir ætluðu með fótboltavöllinn. Þeir lögðu mikla vinnu í það vorið 1930 að rífa burt laust grjót úr gjótunni, fylla í holur og laga til ágætis fótboltavöll.

Fyrsta blaðið sem Haukar gáfu út, kom út 1934 og hafði nafnið Haukur.

„Verkinu var ekki lokað þegar við fórum flestir í sveit yfir sumartímann. En þegar við komum aftur úr sveitinni, þá hafði orðið nokkur breyting á hinum tilvonandi fótboltavelli okkar. Allt svæðið var orðið fullt af grænum kartöflugrösum og var það einnig næstu sumur, en við héldum áfram að sparka á götunni,“ sagði Sófus. „Það var einhvern tíma á miðjum vetri 1931, að mér varð gengið út á götu og hitti þar fyrir fjóra eða fimm drengi, sem voru leikfélagar mínir og voru þeir í lágværum samræðum sín á milli fullir ákafa. Það tók mig nokkra stund að átta mig á því hvert leyndarmál þeirra var.“

Undirbúningur að formlegri félagsstofnun stóð í nokkurn tíma. Þeir voru allir félagar í KFUM og fljótlega kom upp sú hugmynd að stofna íþróttafélag sem væri tengt KFUM. Sendur þeir fulltrúa sína í ferð til Reykjavíkur til fundar við séra Friðrik Friðriksson og þrír félaganna fóru í heimsókn til Jóels Ingvarssonar læriföður þeirra í KFUM í Hafnarfirði til að kynna hugmyndina. Bæði Friðrik og Jóel tóku vel í hugmyndina og buðu þeim aðstoð sína.

Stofnfundur var ákveðinn 12. apríl 1931 í KFUM-húsinu við Hverfisgötu og í fundargerð frá fundinum stendur eftirfarandi: „Sunnudaginn 12. apríl 1931 komu nokkrir piltar saman í húsi K.F.U.M. til þess að stofna íþróttafélag sem eigi að starfa á grundvelli K.F.U.M. Stofnendur eru þessir: Óskar Gíslason, Karl Auðunsson, Jens Sveinsson, Þórður Guðbjörnsson, Jóhannes Einarsson, Helgi Vilhjálmsson, Sigurgeir Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jón Halldórsson, Bjarni Sveinsson, Hallgrímur Steingrímsson, Nikulaj Grímsson (Sófus Berthelsen) og Geir Jóelsson.“ Sá elsti, Óskar Gíslason, var nýorðinn 17 ára og sá yngsti, Geir Jóelsson, var 10 ára.

Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Karl Auðunsson.

Stofnfélagar Hauka á 15 ára afmæli félagsins 1946. Fremri röð f.v.: Jón Halldórsson, Þórður Guðbjörnsson, Bjarni Sveinsson, Magnús Kjartansson, Karl Auðunsson. Aftari röð f.v.: Sófus Berthelsen, Sigurgeir Guðmundsson, Jens Sveinsson, Hallgrímur Steingrímsson, Jóhannes Einarsson, Helgi Vilhjálmsson og Geir Jóelsson. Á myndina vantar Óskar A. Gíslason.

Til að byrja með, beindist áhugi þessara ungu manna að hlaupum, en brátt tók knattspyrnan hug þeirra og æfingatíma. Þegar var ákveðið að ryðja völl til afnota fyrir félagið og var honum ákveðinn staður við Hraunsholt. Sýnir þetta að í þessum piltum hefur búið kraftur og dugnaður. Árið eftir, 1932, tekur félagið að iðka handknattleik, í fyrstu nokkuð skipulagslítið eins og gengur. Þessi áhrif komu frá Hallsteini Hinrikssyni, sem þá var nýkominn frá Danmörku og kenndi við Flensborgarskólann.

Heimild: Þjóðviljinn: Haukar 15 ára, Haukar í 60 ár. 

 

Útboð á fullnaðarhönnun á nýja knatthúsinu var auglýst nýlega og á að vera búið að skila tilboðum 20. þessa mánaðar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2