Kristín Þorleifsdóttir (Didda) er fædd í Hafnarfirði 24. febrúar 1925 og er því 100 ára í dag.
Hún er Hafnfirðingur og Gaflari í húð og hár, ólst upp á Nönnustíg 3 og voru foreldrar hennar þau Þorleifur Guðmundsson yfirverkstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ og Sigurlín Jóhannesdóttir húsmóðir.
Systkini Kristínar voru Guðmundur (Mummi), Margrét (Mæja), Sigrún (Dúna, Blómabúðinni Burkna) og Gyða, sem lést í barnæsku.
Afmælisveisla í Hásölum
Fjölskylda Diddu fögnuðu tímamótunum með því að blása til stórrar afmælisveislu í Hásölum í dag þar sem Didda lék á alls oddi. Þráinn sonur hennar fór í stuttu máli yfir lífsferil hennar og þá kvað Didda sér hljóðs, gekk í pontu og þakkaði fólki fyrir komuna og fagnaði þeirri góðu þjónustu sem hún fengi í heimaþjónustu á Hjallabrautinni. Greinilega þakklát og sátt.


Fjölskylda Kristínar og Hauks
Kristín giftist Hauki Magnússyni frá Reynidal í Mýrdal 11. mars 1944. Hann var þá lögregluþjónn en starfaði lengst af sem húsasmíðameistari. Hann lést árið 1987.

Þau hjónin byggðu sér hús að Tunguvegi 3 þar sem einnig var trésmíðaverkstæði Hauks.

Börn þeirra eru fimm: Bjarni Hólm, Gyða, Auður, Þráinn og Hulda Mjöll. Öll búa þau í Hafnarfirði nema Hulda sem bjó lengst af í Reykjavík en nú í Mosfellsbæ. Barnabörnin eru 15 talsins og afkomendurnir alls á fimmta tug.
Haukur var áhugasamur um veiði og útiveru og voru ferðalög um landið ríkur þáttur í lífi fjölskyldunnar.
Gegnt heimilinu á Tunguveginum bjuggu Mæja systir Diddu ásamt Sigurði Jónssyni og börnum þeirra og var afar náið og gott samband á milli frændfólksins sem og við fjölskyldu Dúnu og Gísla Jóns Egilssonar á Merkurgötunni.
Við síldarsöltun, goggasmíði og blómasölu
Samhliða því að gæta bús og barna vann Didda á stundum utan heimilis m.a. við síldarsöltun. Þegar á þurfti að halda greip hún oft í samsetningu málarastiga og fiskigogga á verkstæði Hauks. Hún hélt framleiðslunni meira að segja gangandi þegar Haukur vann um tíma í Svíþjóð í lok sjöunda áratugar síðustu aldar þegar efnahagslífið var í lægð vegna aflabrests. Í framhaldinu dvöldust Haukur og Didda ásamt yngstu börnunum sumarlangt í Varberg í Svíþjóð. Þá gafst tækifæri til þess að ferðast um Skandinavíu.
Þegar börnin voru komin á legg hóf Didda störf hjá Dúnu systur sinni í blómabúðinni Burkna og vann þar við afgreiðslu- og bókhaldsstörf.

Býr í eigin íbúð
Árið 1990 flutti Didda í eigin íbúð á Hjallabraut 33 og hefur búið þar æ síðan. Þar hefur hún notið vináttu margra, tekið þátt í félagsstarfi og húsfélagsstjórn. Didda var virk í Kvenfélaginu Hrund sem var félagsskapur eiginkvenna iðnaðarmanna í Hafnarfirði. Þá hefur hún látið sig málefni Krabbameinsfélagsins varða en sjálf tókst hún á við krabbamein af fádæma æðruleysi þá rétt um sextugt. Didda er afar listfeng og hefur notið þess að prjóna, hekla, hanna skartgripi og búa til verk úr gleri.
Eldheitur stuðningsmaður Hauka
Didda er eldheitur stuðningsmaður Hauka. Hún mætti oft í góðra vinkvennahópi á heimaleiki handknattleiksliða þeirra allt fram að heimsfaraldri. Hún fylgist enn með öllum leikjum félagsins í sjónvarpi.
Didda hefur lifandi áhuga á þjóðmálum og málefnum líðandi stundar. Hún er höfuð og hjarta stórfjölskyldunnar og lætur sér annt um allt sitt fólk. Hún nýtur samvista við það, hvenær sem færi gefst, en hefur líka samband í síma og á samfélagsmiðlum. Didda er stálminnug og fer oft með ljóð, vísur og sálma sem hæfa tilefni og aðstæðum hverju sinni. Skáldskap nam hún af ömmu sinni og nöfnu sem er og hefur verið hennar fyrirmynd.
Foreldrar
Sigurlín móðir Kristínar fæddist á Gilsárteigi skammt frá Egilsstöðum en flutti 5 ára gömul til Hafnarfjarðar. Þorleifur var ættaður úr Arnarfirði en fluttist með foreldrum sínum, Guðmundi Ásgeirssyni og Kristínu Þorleifsdóttur, til Hafnarfjarðar 11 ára gamall.

Þorleifur og systkini hans voru oft kennd við Hæðina sem er efst í brekkunni beggja vegna Reykjavíkurvegar. Út af þeim systkinum er kominn fjöldi afkomenda sem margir eru búsettir í Firðinum. Didda hefur haldið til haga munum og minningum sem tengjast fjölskyldu hennar í Arnarfirði.
Kristín amma hennar var barnabarn Margrétar Sigurðardóttur, systur Jóns (forseta) Sigurðssonar.
Eldri ljósmyndir eru úr safni fjölskyldunnar.
Myndir frá afmælinu













