Kviku banka hefur verið falið að selja 15,42% eignarhlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum. Viðskiptablaðið greindi frá þessu.
Kvika sá einnig um sölu á tæplega 38% hlut í HSV eignarhaldsfélagi, sem er næststærsti hluthafi HS Veitna með 34,4% hlut í sinni eigu, til framtakssjóðsins Innviða fjárfestinga.
Mjög skiptar skoðanir eru um sölu á hlut Hafnarfjarðarkaupstaðar í HS Veitum og er verið að hrinda af stað undirskriftasöfnun til að krefjast íbúakosningar um málið.
25% atkvæðabærra bæjarbúa þarf til að krefjast íbúakosninga en Hafnarfjarðarbær var eitt fyrsta sveitarfélagið til að setja ákvæði um slíkt í samþykktir síðar. Síðar var sett í lög að 20% atkvæðabærra íbúa í sveitarfélagi gæti krafist íbúakosninga ef ekki væri kveðið á um annað í samþykktum sveitarfélagsins.