Á fundi Íþrótta- og tómstundanefndar 13.12.2019 óskaði íþrótta- og tómstundanefnd eftir upplýsingum frá eftirlitsnefnd Hafnarfjarðarbæjar um fjármál íþrótta- og æskulýðsfélaga um hvort hún hyggðist taka fyrir lán frá barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Fimleikafélags Hafnarfjarðar til meistaraflokks sömu deildar.
Lán til að gera upp laun knattspyrnudeildar
Staðfesti Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH í samtali við Fjarðarfréttir í desember 2019 að lánið næmi 5 milljónum kr. og að skuldabréf hafi verið gefið út fyrir láninu með endurgreiðslu í maí.
Sagði Valdimar að stjórn knattspyrnudeildarinnar hefði helst viljað sleppa við að taka þetta lán en lausafjárstaðan hefði erfið nú, m.a. vegna tafa á samningum við Hafnarfjarðarbæ. Þó fjárhagur væri aðskilinn hafi reksturinn verið sveiflukenndur og fé hafi þá verið fært á milli í hina áttina líka. Lagði hann áherslu á að þessi lántaka ætti ekki að hafa áhrif á starf barna og unglinga enda verði stefnt að því að greiða lánið hratt niður. Sagði hann enga launung á að í aðdraganda jóla hafi verið talið mikilvægt að gera upp laun leikmanna, þjálfara og starfsmanna deildarinnar.
Staðfesti Valdimar að lánið næmi 5 milljónum kr. og að skuldabréf hafi verið gefið út fyrir láninu með endurgreiðslu í maí.
Stjórn barna- og unglingaráðs kom ekki að undirritun bréfsins en skv. lögum FH skal fjárhagur unglingaráða vera aðskilinn frá fjármálum meistaraflokka.
Ekki lán heldur hlutdeild í sameiginlegum stjórnunarkostnaði
Á fundi eftirlitsnefndar um fjármál íþrótta- og æskulýðsfélaga 20. maí sl. var málið tekið fyrir og fékk nefndin staðfest frá Viðari Halldórssyni, formanni aðalstjórnar FH, að þetta hafi ekki verið lán heldur hlutdeild barna og unglingastarfs í sameiginlegum stjórnunar kostnaði við rekstur knattspyrnudeildar félagsins eins og fram kemur í ársreikningi knattspyrnudeildar. Sagði Viðar í svari til nefndarinnar að þessi háttur verði hafður á hér eftir.
Mjög umdeilt mál
Stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar FH sagði sig frá störfum fyrir deildina sl. vetur og var ástæðan sögð, í tilkynningu til foreldra, skoðanaágreiningur við formann og framkvæmdastjórn knattspyrnudeildar og formann FH, trúnaðarbrestur og óásættanleg vinnubrögð þeirra undangengnar vikur.
Undanfarin ár hafa foreldrar þurft að greiða sérstakt gjald sem er leiga fyrir afnot af minnsta knatthúsinu, Dvergnum og hefur verið mikil óánægja með það meðal foreldra.