Fyrr á þessu ári lauk umhverfismati vegna Suðurnesjalínu 2 sem liggja á frá Hafnarfirði og út á Reykjanes. Línunni er ætlað að bæta við tengingu Suðurnesja við flutningskerfi raforku og bæta þannig raforkuöryggi ef núverandi lína dettur út en í dag veldur það straumleysi á svæðinu. Einnig getur það valdið óstöðugleika víðar í kerfinu og hefur valdið straumleysi í bænum að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta.
Hluti leyfisveitenda vill að línan verði lögð í jörðu
„Landsnet er því tilbúið að hefja framkvæmdir en hluti leyfisveitenda er á því að línan skuli lögð í jörðu og er því framkvæmdaferlið ekki hafið,“ segir Steinunn en komið hefur fram að sveitarstjórnum Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Voga hugnist jarðstrengsvalkostur best. Þá hafa einstaka landeigendur sett sig upp á móti því að loftlína fari um þeirra land en alls hefur verið samið við eigendur 28 af 33 um að fara með loftlínu í gegnum þeirra land skv. upplýsingum frá Landsneti.
Hafnarfjarðarbær hefur ekki sett sig upp á móti því að loftlína fari um þeirra land og höfðu veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línuvegar um ósnortið hraun í upplandi bæjarins.
Línan mun liggja upp í Hrauntungur sunnan Hafnarfjarðar, rétt vestan við við rallýkrossbrautina og er það fyrsti liðurinn í myndun nýs „hnútpunktar“ raforkuinnviða í Hafnarfirði í stað núverandi Hamranes tengivirkis.
Umhverfismat í undirbúning vegna Lyklafellslínu
Þá er einnig í undirbúningi nýtt umhverfismat vegna Lyklafellslínu sem liggja á um sama hnútpunkt í Hrauntungum sem áður er nefndur.
Báðar þessar línur munu liggja vestan við Vellina í Hafnarfirði og eru forsenda fyrir niðurrifi Hamraneslína 1 og 2 sem liggja um Heiðmörkina.
Í umhverfismati Lyklafellslínu er einning tekin fyrir stutt lína frá Hamranesi sem ætlað er að koma í stað núverandi Ísallínu.
„Áætlanir Landsnets ganga því út á að fylgja með þróun og þenslu íbúabyggðar með byggingu Suðurnesjalínu 2 og Lyklafellslínu 1 fjær byggð en núverandi línur. En á móti taka niður fjórar línur, Hamraneslínur 1 og 2 og Ísallínur 1 og 2.
Til hefur staðið að hefja þessar framkvæmdir nú um margra ára skeið en flóknir leyfisferlar, kæruferli og dómsmál hafa tafið framgang þeirra,“ upplýsir Steinunn.