Leikskólastjórar í Hafnarfirði hafa lagt fram mótmæli við fyrirhuguðum sumaropnunum leikskólanna frá og með 2021.
Snúast áhyggjur þeirra að hag leikskólabarna skv. bókum sem fulltrúi þeirra lagði fram í fræðsluráði í dag. Segjast þeir sem sérfræðingar í kennslu á leikskólastigi illa sjá hvernig þessi breyting getur verið skref í átt að barnvænna samfélagi.
Hafa þeir einnig áhyggjur af upphafi og enda skólaársins, útskrift, innritun og aðlögun nýnema sem muni seinka við þessa aðgerð.
Segja þeir samráðsleysi hafa verið neikvæða upplifun og benda á að í breytingastjórnun þykja ákvarðanir sem teknar eru af yfirvöldum, og eiga að hríslast niður, vekja tortryggni og oftar en ekki virka þær illa.
Segja þeir hlutverk leikskólans vera skýrt en skilin annarsveg ar á milli kennslu/umönnunar sem er hlutverk þeirra í daglegu leikskólastarfi og hins vegar vistunar/gæslu, orðin óskýrari með þessari ákvörðun Fræðsluráðs. Sé leitt vera til þess að hugsa að fræðsluráð geri ekki meiri greinarmun á kennslu og gæslu.
Benda þeir á að í grunnskólanum fara allir kennarar í orlof á sama tíma og við taka leikjanámskeið. Yfirlýsing fræðsluráðs um að starfsemi leikskólanna verði óskert í sumaropnun standist því enga skoðun.
Segja leikskólastjórar að sumaropnun þýði flóknara starfsmannahald og dýrari rekstur leikskólanna.
Vekja þeir athygli á að 79% foreldra vilji val um sumarleyfistíma, en 56% þeirra sem svara könnuninni vilja fara í frí í júlí, 21% velji ágúst og 23% velji júní. Í sömu könnun kom einnig fram að 94% foreldra gátu verið með barninu sínu í sumarorlofi að hluta eða að öllu leyti.
390 starfsmenn leikskólanna mótmæla
Þá var lagður fram á fundi fræðsluráðs undirskriftalisti 390 starfsmanna leikskólanna í Hafnarfirði þar sem framkvæmdinni er mótmælt og eru rökin nokkuð samhljóða rökum leikskólastjóranna.
Benda þeir m.a. á að starfsmannavelta í leikskólum bæjarins hafi verið töluverð með tilheyrandi álagi á það starfsfólk sem eftir er. Segja þeir að þjálfa þurfi nýtt starfsfólk sem hefji störf, jafnvel þó það staldri stutt við. Segja þeir að faglegt starf geti raskast í lengri tíma en ella og ekki sé hægt að ganga út frá að börnin verði á sinni deild yfir sumarmánuðina og hafi sína leikskólakennara með sér.
Fulltrúi Miðflokksins í fræðsluráði segir að mikilvægt sé að breytingar sem þessar verði gerðar í sátt við starfsfólk leikskólanna og er meirihluti fræðsluráðs hvattur til að endurskoða ákvörðun sína um sumaropnanir leikskóla.
Fulltrúi Samfylkingarinnar lét bóka að Samfylkingin óskaði eftir umsögn þróunarfulltrúa leikskóla um möguleg áhrif breytinga sumaropnunar, þ.e. á mögulega fækkun leikskólakennara, á faglegt starf leikskólanna, kostnaðarauka við opnunina, hvenær viðhaldi verði sinnt ef skólarnir væru alltaf opnir, mögulega nýtingu sumaropnunar og hvort sumaropnun ætti að gilda um alla leikskóla bæjarins?
Þá lýsti hann yfir vonbrigðum með að ekki skyldi hafa verið haft samráð við starfsfólk leikskólanna um sumaropnunina. Faglegt samráð sé afar mikilvægt þegar verið sé að ræða starf leikskólanna.
Drög að erindisbréfi vinnuhóps lögð fram
Drög að erindisbréfi fyrir starfshóp til undirbúnings sumaropnuninni voru lögð fram en miðað er við að skólarnir verði opnir 12 mánuði á ári en börn þurfi að taka 4 vikur samfleytt í sumarfrí.
- Starfshópurinn skal fyrst og fremst vera ráðgefandi álitsgjafi um útfærslur og leiðir sem mennta- og lýðheilsusvið leggur til.
- Starfshópnum skal tryggja að hugað sé að öllum þáttum sem snúa að leikskólastarfi í Hafnarfirði.
- Starfshópurinn skal taka tillit til og skoða áhrif á ólíka hópa s.s. hvað varðar börn, foreldra og starfsfólk, sem koma að leikskólastarfi innan Hafnarfjarðar.
- Starfshópurinn skal halda fundargerðir og skila skýrslu og niðurstöðum til fræðsluráðs.
Meirihluti fræðsluráðs þakkaði góðar og gagnlegar umræður um sumaropnun leikskóla.