fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirLíkamsrækt Kvennastyrks til styrktar MS félaginu

Líkamsrækt Kvennastyrks til styrktar MS félaginu

Góðgerðaræfingar Kvennastyrks

Laugardaginn 11. nóvember sló Kvennastyrkur líkamsræktinni upp í góðgerðardag til styrktar MS félagi Íslands. Frá klukkan átta til fimm hófst ný æfing á klukkustundarfresti og klukkan sex var svokallaður rjómi sem var lokapunkturinn á deginum. Í heildina voru þetta því í raun ellefu æfingar á þessum ellefu klukkustundum.

Fjöldi kvenna lagði sér leið í Kvennastyrk og voru þar flestar iðkendur sem skelltu sér á æfingu en gestir kíktu líka við og aðrar konur sem vildu leggja málefninu lið.

Hjördís Ýrr Skúladóttir formaður MS félagsins tók þátt í deginum og mætti á æfingu í morgunsárið en bæði ríflega sjötug móðir hennar og systir mættu svo síðar um daginn. Hjördís Ýrr greindist með MS fyrir átta árum en lætur það svo sannarlega ekki stoppa sig.

Söfnuðu vel yfir tvö hundruð þúsund krónur

Yfir daginn söfnuðust vel yfir tvö hundruð þúsund krónur sem rennur óskert til MS félagsins en eigendur Kvennastyrks gáfu vinnu sína þennan dag ásamt því að bæta svolítið í styrkinn til félagsins. Þetta sýnir hvað litlir fyrirtækjaeigendur og einstaklingar geta gert þegar fólk tekur sig saman.

Hreysti aðstoðaði við daginn og styrkti Kvennastyrk um Batterí sem er kolvetnadrykkur til að halda næringunni gangandi yfir daginn og MS mjólkursamsalan gaf Hleðslu til að konurnar gætu nært sig með prótíni á móti.

Hjónin Viðar Bjarnason og Halldóra Anna Hagalín eru eigendur Kvennastyrks og þjálfarar. Þau segja stöðina leggja áherslu á samfélagslega vikni og að efla konur. Umhverfið sem Kvennastyrkur bjóði upp á sé einstakt og afslappað og æfingarnar fjölbreyttar og skemmtilegar.

Hjördís Ýrr, formaður MS ásamt hjónunum Halldóru og Viðari eigendum Kvennastyrks

„Í okkar nærumhverfi, fjölskyldu sem og hér í ræktinni, eru nokkrir aðilar með MS sem lýsir sér aldrei eins og er að sönnu sjúkdómur með mörg andlit. Við fengum þá hugmynd fyrir nokkrum vikum að prófa að vera með styrktaræfingu í Kvennastyrk sem svo þróaðist áfram í heilan dag til að sem flestar gætu tekið þátt og tóku konurnar okkar mjög vel í þessa hugmynd. Elsti sonur okkar ákvað mér til mikillar gleði að taka þátt með okkur og gerðum við því örlitla undantekningu á reglunni þennan eina dag á að hér séu einungis konur að æfa. Hann er tvítugur og við feðgarnir vorum með á öllum æfingunum á meðan Halldóra þjálfaði þær flestar og var sjálf með á helmingnum,“ segir Viðar Bjarnason þjálfari og eigandi Kvennastyrks.

„Við erum í skýjunum eftir daginn og komu margar okkar frábæru kvenna skemmtilega á óvart með því að mæta á fleiri en eina æfingu yfir daginn,“ bætir Halldóra Anna Hagalín hinn eigandi Kvennastyrks og þjálfari við. „Góðgerðaræfingardagur er klárlega orðinn að árlegum viðburði og hlökkum strax til þess næsta.“

Bára Fanney iðkandi, Viðar Bjarnason eigandi og Mikael Aron Viðarsson

Kvennastyrkur líkamsrækt er staðsett á Strandgötu 33 í miðbæ Hafnarfjarðar þar sem aðgengi er gott, bílastæði fyrir framan og í kringum húsið og við nærliggjandi hús. Kvennastyrkur leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytta tíma fyrir konur á öllum aldri, byrjendur sem og lengra komnar, og bjóða konur velkomnar í frían prufutíma. Heimasíðan er www.kvennastyrkur.is.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2