Þjónustuver og sundlaugar Hafnarfjarðarbæjar eru lokaðar frá og með deginum í dag vegna vinnustöðvunar starfsfólks í Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar.
Verkfall í þjónustuverinu í Ráðhúsinu stendur yfir til 5. júlí nk. verði ekki samið á tímabilinu.
Lokun nær líka til símsvörunar þjónustuvers, netspjalls á vef bæjarins og svörunar í gegnum samfélagsmiðla.
Sjálfsafgreiðsla á vef og í anddyri Ráðhúss
Anddyri Ráðhúss Hafnarfjarðar verður opið og þar geta gestir, sem eiga bókað viðtal eða fund í húsi, skráð komu sína gegnum móttökuskjá. Vakin er sérstök athygli á því að ekki verður tekið á móti teikningum í þjónustuveri á meðan á verkfalli stendur. Í neyðartilfellum er hægt er að setja bréf eða minni sendingar í afgreiðslukassa í anddyri en íbúar og aðrir hvattir til að nýta aðrar boðleiðir. Ábendingagátt Hafnarfjarðarbæjar er opin en vinnustöðvun mun hafa áhrif á svörun og vinnslu ábendinga. Þjónustumiðstöð mun áfram annast svörun ábendinga er varðar þeirra verkefni og verksvið. Sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs, Sigurjón Ólafsson, er eini starfandi starfsmaður þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar í verkfallinu.
Nýjar upplýsingar verða gefnar út á miðlum bæjarins um leið og þær liggja fyrir.
Sundlaugarnar lokaðar þar til verkfall leysist
Sundlaugarnar í Hafnarfirði verða lokaðar þar til samningar nást vegna vinnustöðvunar starfsfólks sundlauganna í Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar.
Öll starfsemi í sundlaugum fellur niður á meðan verkfall stendur yfir. Verkfallið er ótímabundið og því liggur ekki fyrir hversu lengi sundlaugarnar verða lokaðar.
Opið í Ásmegin og GYM heilsu í Ásvallalaug
Opið verður alla virka daga í sjúkraþjálfuninni Ásmegin og í GYM heilsu í Ásvallalaug. Búningsklefar GYM heilsu verða þó lokaðir á meðan verkfalli stendur.
Lokað verður í GYM heilsu í Suðurbæjarlaug á meðan verkfalli stendur.
Forstöðumaður sundlauganna, Aðalsteinn Hrafnkelsson, er eini starfandi starfsmaður sundstaða Hafnarfjarðarbæjar í verkfallinu.