fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirLoksins samið við sjúkraþjálfara

Loksins samið við sjúkraþjálfara

Nýr samningur milli Sjúkratrygginga Íslands og Félags sjúkraþjálfara til fimm ára var undirritaður í gær og staðfestur af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra.

Aukagjöld falla niður frá 1. júní

Frá og með 1. júní falla niður þau aukagjöld sem lögð hafa verið á sjúklinga í samningsleysinu.

Á því árabili sem enginn samningur hefur verið í gildi við sjúkraþjálfara hafa Sjúkratryggingar tekið þátt í kostnaði við þjónustu þeirra samkvæmt sérstakri gjaldskrá. Sjúkraþjálfarar hafa á þeim tíma innheimt aukagjald við hverja komu sem hefur gjarnan numið á bilinu 1.500 til 3.000 kr. Sjúkraþjálfara munu hætta að innheimta þessi aukagjöld frá og með 1. júní.

Þann 1. október tekur samningurinn síðan gildi að fullu, þegar lokið er nauðsynlegum tæknilegum útfærslum og forritunarvinnu. Á samningstímanum verður unnið að útfærslu ýmissa úrbóta- og þróunarverkefna sem kveðið er á um í samningnum. Þau felast meðal annars í þarfa- og kostnaðargreiningu og mótun aðferða við forgangsröðun þjónustu. Jafnframt er með samningnum lögð áhersla á eflingu gæðastarfs m.a. með því að veita hvata til þess að sjúkraþjálfarar vinni innan svokallaðra starfsheilda sem einnig munu annast skipulagningu og eftirlit með þjónustunni.

Hefur bitnað á notendum þjónustunnar

„Þetta eru mikil tímamót eftir rúmlega fjögurra ára samningsleysi sem hefur bitnað á notendum þjónustunnar. Með samningnum falla niður aukagjöld sem lögð hafa verið á þjónustuþega. Samningurinn stuðlar þannig að auknum jöfnuði. Jafnframt er kveðið á um margvíslegt þróunar- og gæðastarf þjónustunnar í þágu notenda,“ segir Willum Þór.

„Það er virkilega ánægjulegt að tekist hefur að ná nýjum langtímasamningi sem tryggir aðgengi að þjónustu sjúkraþjálfara og býður upp á spennandi tækifæri til frekari framþróunar þjónustu þeirra,“ segir Sigurður Helgi Helgason forstjóri Sjúkratrygginga. 

Undir þetta tekur Gunnlaugur Briem formaður Félags sjúkraþjálfara og bætir við: „Það er verulega ánægjulegt að samkomulag hafi náðst um fyrirkomulag þjónustunnar. Með þessu skrefi mun aðgengi að þjónustunni vera bætt verulega, ekki síst fyrir þá sem mest þurfa á að halda. Í þessu felast einnig fjölmörg tækifæri til framþróunar á komandi árum.“

Rúmlega 62.000 einstaklingar nýttu þjónustu sjúkraþjálfara í fyrra

Samkvæmt upplýsingum Sjúkratrygginga sóttu rúmlega 62.000 einstaklingar þjónustu sjúkraþjálfara á liðnu ári. Heimsóknirnar voru miklum mun fleiri, eða um 928.000. Árið 2022 leituðu 55.752 til sjúkraþjálfara þannig að aukningin milli ára nam um 11,3%. Það sem af er ári 2024 hafa nú 41.964 farið í sjúkraþjálfun sem er 3,9% aukning frá því sama tíma í fyrra.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2