fbpx
Mánudagur, janúar 20, 2025
HeimFréttirLyfjaverksmiðja Actavis, sem hefur verið lokuð í rúmt ár, aftur í notkun...

Lyfjaverksmiðja Actavis, sem hefur verið lokuð í rúmt ár, aftur í notkun hjá nýjum eigendum

Coripharma Holding hefur gert samning um kaup á lyfjaverksmiðju Actavis og verður með um 400 starfsmenn

Coripharma Holding ehf., sem skráð var 27. mars sl., og Actavis Group PTC ehf., hluti af samstæðu Teva Pharmaceutical Industries Ltd., undirrituðu í gær samkomulag um kaup Coripharma á Actavis ehf.

Með kaupunum eignast Coripharma og skrifstofuhúsnæði og lyfjaverksmiðju Actavis við Reykjavíkurveg, stærstu lyfjaverksmiðju landsins,  en hún hefur verið lokuð í rúmt ár. Stefnt er að því að verksmiðjan verði komin í fullan rekstur innan árs.

Vinna við að manna starfsemina og endurnýja öll gæðavottorð verksmiðjunnar eru þegar hafin og stefnt er á að öll tilskilin leyfi til alþjóðlegrar lyfjaframleiðslu verði komin fyrir lok ársins.

Teva mun áfram eiga og reka Medis og önnur félög í nafni Actavis á Íslandi og heldur öllum réttindum er lúta að Actavis nafninu. Þar starfa í dag um 280 manns.

Bjarni K. Þorvarðarson forstjóri Coripharma

Bjarni K. Þorvarðarson er forstjóri Coripharma segir í tilkynningu að aðstandendur kaupanna séu mjög ánægðir með að hafa náð samkomulagi við Teva, móðurfélag Actavis og geta nú virkjað þann mikla áhuga sem við höfum fundið á að endurreisa fyrri framleiðslu og útflutning lyfja héðan.

„Í hópi Coripharma eru bæði reyndir fjárfestar og vanir aðilar úr rekstri alþjóðlegra lyfjafyrirtækja og þessarar lyfjaverksmiðju. Samhliða sjálfstæðri lyfjaframleiðslu Coripharma sjáum við jafnframt fram á að njóta góðs af nánu sambýli við önnur lyfjafélög sem eru rekin hér í Hafnarfirðinum. Þannig stefnum við á kraftmikið og frjótt framleiðslu- og þekkingarsamfélag nokkurra félaga í skyldum rekstri í framtíðinni,“ segir Bjarni.

Torfi Rafn Halldórsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Coripharma

Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Coripharma, Torfi Rafn Halldórsson, segir að í upphafi muni félagið gera samstarfssamninga við lyfjafyrirtæki, um að framleiða lyf undir þeirra merkjum. „Þegar eru hafnar viðræður við allnokkur alþjóðleg lyfjafyrirtæki, sem hafa sýnt Coripharma mikinn áhuga, sem m.a. byggist á því góða orðspori sem Ísland hefur sem lyfjaframleiðandi í gegnum farsæla sögu Actavis og Medis,“ segir Torfi.

Actavis og Teva

Þann 3.ágúst 2016 var Actavis Generics tekið yfir af Teva Pharmaceutical Industries Ltd., leiðandi alþjóðlegu lyfjafyrirtæki.

Úr lyfjaverksmiðju Actavis

Samtals eru sjö Actavis fyrirtæki skráð á Íslandi og er Actavis ehf. þeirra elst, skráð 2002 en Actavis Pharmaceuticals Ice ehf. yngst, skráð í janúar 2017.

  • Actavis ehf. kt. 491002-3280
  • Actavis Finance ehf. kt. 700715-0350
  • Actavis Group ehf. kt. 650407-0590
  • Actavis Group PTC ehf. kt. 640706-0310
  • Actavis Pharma Holding 4 ehf. kt. 650407-0910
  • Actavis Pharma Holding 5 ehf. kt. 490307-1920
  • Actavis Pharmaceuticals Ice ehf. kt. 510117-1660

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2