fbpx
Fimmtudagur, janúar 23, 2025
HeimFréttirLyktarmengun frá olíutönkum til ama fyrir íbúa - Uppfært

Lyktarmengun frá olíutönkum til ama fyrir íbúa – Uppfært

Ekki er enn vitað nákvæmlega hvaðan malbikslykti kemur

Íbúar í nánd við suðurhöfnina hafa undanfarið kvartað yfir mikill lyktarmengun frá olíutönkum malbikunarstöðvarinnar Hlaðbæjar-Colas í tönkunum er geymd bik í malbik. Hafa slíkir tankar verið þarna frá 1974 án þess að vera til ama svo vitað sé.

Einn íbúi á Skipalóni segir að íbúarnir hafi þurft að þola þetta í allt sumar og fullyrðir að allir hægviðrisdagar síðan í maí haf lyktað svo illa í hverfinu að börnin hafa ekki getað verið úti.

Íbúi við Suðurbraut sagði í gær að hún hafi ekki getað opnað herbergisgluggann kl. 7.30 um morguninn vegna lyktar.

Íbúar í Skipalóni, þar sem áður stóðu olíutankar, hafa fundið mikið fyrir lyktinni.

Einn íbúa sagðist hafa fengið svar frá Hafnarfjarðarbæ þar sem hvatt var til að senda bænum í gegnum ábendingargátt.

Umhverfisstofnun hefur brugðist við

Umhverfisstofnun hefur brugðist við ábendingum íbúa, sem fyrst fóru að berast í júlí sl., og hefur sent rekstraraðila niðurstöður fyrirvaralauss eftirlits sem gert var 2. september sl., í framhaldi af lyktarkvörtunum. Segir í svari frá stofnuninni að rekstraraðili vinni að úrbótaáætlun og að farið verið yfir hana í framhaldinu með rekstraraðila svo þær aðgerðir samræmist þeim lögum og reglum sem um mengunarvarnir gilda. Var rekstraraðila gefinn hámarksfrestur til 19. október að skila inn tímasettri áætlun um úrbætur.

Niðurstaða eftirlitsins var sú að rekstraraðili setti af stað rannsókn í samvinnu við eftirlitsaðila þar sem kvartanir verða bornar saman við tíma ádælingar á tankbíla, löndun biks úr skipum, vindrósir á svæðinu og annað sem komið gæti að gangi. Með því verði vonandi unnt að greina hvaðan lyktin er að berast og verður ákvörðun um næstu skref tekin að þeirri rannsókn lokinni.

Lyktin er talin koma frá þessum biktönkum í suðurhöfninni

Ekki var vitað hvaðan lyktin kemur, er eftirlitið fór fram og verða kvartanirnar bornar saman við ádælingartíma tankbíla, löndun biks úr skipum og annað sem talið er að geti gefið hugmynd um það hvað hér er um að ræða. Reynt verður að hafa samband við þá íbúa sem finna fyrir þessari lykt til að fá nánari mynd á málið.

Skv. upplýsingum frá rekstraraðila þann 16. sept sl. kom í ljós að lyktina megi rekja til átöppunar biks á flutningsbíla, er blöndun biks og lýsis á sér stað, en ekki bikgeymanna sjálfra.

Biki er landað í stöðina 4-5 sinnum á ári frá janúar til september og kom síðasti farmur nú í lok ágúst sl. Engin starfsemi er að jafnaði frá desember og fram í febrúar ár hvert.

Ein ábending var sett fram í eftirlitinu er varðar að gæði hráefnis í vinnslu malbiks
og eitt frávik var skráð er varðar:

1. Gr. 4.9 í starfsleyfi og 38. gr laga nr. 7/1998. Rekstraraðili skal tryggja að ekki séu efni til staðar sem aukið geti mengunarhættu, þ.m.t. óæskilega lykt og ber að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun með því að nota bestu aðgengilegu tækni og viðeigandi hráefni séu notuð til starfseminnar.

Hvetur stofnunin íbúa að halda áfram að senda inn ábendingar finni þeir áfram lykt á netfangið ust@ust.is

Umhverfisstjóri Hlaðbæjar Colas, Harpa Þrastardóttir kallar eftir aðstoð íbúa við að greina lyktina og hvetur þá sem hana finna að tilgreina staðsetningu, tíma og hversu lengi hún varir. Segir hún einnig hjálpa að ef fólk geti lýst lyktinni og styrkleika hennar.

Tilkynning frá Hlaðbæ-Colas

Fjarðarfréttir óskaði eftir skýringum frá Hlaðbæ-Colas og þar kemur m.a. fram:

Síðustu vikur hafa verið að koma inn á borð til okkar kvartanir sem raktar hafa verið til lyktar frá biktönkum fyrirtækisins við Óseyrarbraut í Hafnarfirði. Fyrirtækið og forveri þess hafa verið með starfsemi á skilgreindu iðnaðarsvæði við höfnina í 46 ár eða frá 1974 og aldrei fengið kvörtun fyrr en í sumar. Þegar kvartanir fóru að berast inn af alvöru í lok ágúst voru þær tengdar við framleiðslu á ákveðnu efni. Þeirri tengingu var þó tekið með fyrirvara og málið rannsakað áfram sem leiddi til þess að þegar leið á septembermánuð kom í ljós að það er bikið sjálft sem er að valda þessari lykt hvort sem starfsemi er í gangi eður ei.

Undanfarna áratugi hefur fyrirtækið flutt inn og notað bik sem á uppruna sinn í Venúsúela en aðstæður þar í landi hafa orðið til þess að í sumar hefur komið til okkar bik með annan uppruna. Virðist það vera að nýja bikið beri með sér öðruvísi og meiri lykt en við eigum að venjast. Sambærilegar kvartanir hafa verið að koma upp hjá öðrum fyrirtækjum sem nýta þetta sama bik og því tengjum við kvartanir við hráefnið sjálft frekar en tanka fyrirtækisins. Bik er lífrænt efni úr flóknum arómatískum kolefnum og ekki skilgreint sem hættulegt efni þrátt fyrir styrk lyktar.

Því miður hefur ástandið í samfélaginu orðið til þess að samdráttur er í malbiksframleiðslu og því fer bikið hægar út en vonir voru um á þessum árstíma og því enn drjúgur skammtur af þessu biki í tönkunum okkar.

Fyrirtækið er í samvinnu bæði við Heilbrigðiseftirlitið og Umhverfisstofnun vegna þessa máls og skal meðal annars skila úrbótaáætlun fyrir 19. október næstkomandi.

Þetta er verið að skoða til úrbóta:

Fyrir utan að starfsemin leggst nánast í dvala í desember og fram í maí og birgðir fara langt með að klárast er unnið að:

  • Rætt hefur verið við birgja okkar í Evrópu sem mun svara á næstunni um hvaða biktegund verður flutt til Íslands á næsta ári.
  • Fyrirtækið hefur síðustu vikur verið að skoða möguleika á hreinsibúnaði sem fangar bikgufur úr lofttúðum tanka og hreinsar með kolasíum. Við höfum fundið hentugan búnað frá tveimur framleiðendum í Evrópu. Það mun taka um 4-6 mánuði að fá búnaðinn afhentan og þá á eftir að tengja hann við tanka fyrirtækisins en stefnt er að því að klára það fyrir næstu vertíð.
  • Unnið er að hönnun á nýju afgreiðslukerfi (þar sem dælt er á bíla sem sækja efni) og verður það staðsett norðan megin á lóðinni fjær íbúðabyggð en nú er. Jafnframt verður nýja kerfið með afsogsbúnaði og samskonar kolahreinsun og fyrir tankana. Þessi framkvæmd er mjög kostnaðarsöm og ekki er gert ráð fyrir að henni verði lokið fyrr en síðla árs

„Okkur hjá Hlaðbæ Colas þykir mjög leiðinlegt að fyrirtækið sé að valda þessari truflun á lífi nágranna okkar og starfsmanna en því miður er starfsemin þess eðlis að umbætur sem þessar taka lengri tíma en við hefðum sjálf óskað,“ segir í tilkynningu frá Hlaðbæ-Colas.

Er tilkynningin undirrituð af Hörpu Þrastardóttur, umhverfis-, öryggis- og gæðastjóra og Sigþór Sigurðssyni framkvæmdastjóra.

Lesa má alla tilkynninguna hér

Finnst víðar

Lesendur hafa bent á að lyktin hefur fundist víðar í bænum m.a. í miðbænum, fremst á Völlunum og víðar.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2