Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum vegna vísbendinga um kvikusöfnun vestan við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga, um 30 km frá byggð í Hafnarfirði en örskammt frá byggð í Grindavík. Var þetta tilkynnt kl. 17.30 í dag.
Undanfarna daga hefur landris og aukin jarðskjálftavirkni mælst á Reykjanesi og telja jarðvísindamenn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar HÍ mögulegt að kvikusöfnun eigi sér stað vestan við Þorbjörn, þótt ekki sé útilokað að aðrar ástæður geti verið fyrir þessari virkni.
Samhliða hefur Veðurstofa Íslands fært litakóða fyrir flug á gult.
Íbúafundur verður haldinn í íþróttahúsinu Grindavík kl. 16 á morgun, mánudag 27. janúar, þar sem vísindamenn frá Veðurstofunni og Jarðvísindastofnun munu gera grein fyrir stöðunni auk fulltrúa frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
Landris 3-4 mm á dag
Landris hefur mælst frá 21. janúar og virðist miðja þess vera á Reykjanesskaganum rétt vestan við fjallið Þorbjörn. Landrisið er óvenju hratt eða um 3-4 mm á dag og í heildina er það orðið um 2 cm þar sem það er mest og kemur fram bæði á síritandi GPS mælum og í bylgjuvíxlmælingum úr gervitunglum. Landrisið er líklegast vísbending um kvikusöfnun á nokkurra km dýpi.
Atburðarásin er óvenjuleg fyrir svæðið
Nákvæmar mælingar á jarðskorpuhreyfingum á Reykjanesskaganum ná yfir tæplega 3 áratugi. Á því tímabili hefur sambærilegur landrishraði ekki mælst. Atburðarásin er því óvenjuleg fyrir svæðið ef miðað er við reynslu undanfarinna áratuga. Landrisið mælist samfara jarðskjálftahrinu austan við rismiðjuna (norðaustan við Grindavík) sem mælst hefur frá 21. janúar. Stærstu skjálftarnir mældust 22. janúar og voru 3,7 og 3,6 að stærð og fundust vel á Reykjanesskaganum og allt norður í Borgarnes. Dregið hefur úr hrinunni síðustu daga. Jarðskjálftahrinur eru algengar á svæðinu og þessi hrina getur ekki talist óvenjuleg ein og sér. Það að landris mælist samfara jarðskjálftahrinunni, gefur tilefni til þess að fylgjast sérstaklega náið með framvindu á svæðinu.
Dæmi um hraungos úr sprungum á svæðinu á 13. öld
Landrisið mælist á flekaskilum og innan eldstöðvakerfis Svartsengis sem er ýmist talið sjálfstætt eldstöðvakerfi eða talið vera hluti stærra kerfis sem kennt er við Reykjanes. Síðast gaus í kerfinu í Reykjaneseldum sem stóðu yfir með hléum á tímabilinu 1210-1240 en á því tímabili gaus nokkrum sinnum þar af urðu þrjú eldgos í Svartsengiskerfinu. Eldgosin voru hraungos á 1-10 km löngum gossprungum en engin sprengigos eru þekkt í Svartsengiskerfinu. Stærsta gos í hrinunni á 13. öld myndaði Arnarseturshraun (um 0,3 km³ og 20 km²). Algengast er að gos af þessari gerð standi yfir í nokkra daga, upp í nokkrar vikur.
Mögulegar sviðsmyndir
Atburðarrásin hefur aðeins staðið yfir í nokkra daga og óvíst hvort að hún leiði til frekari atburða sem hafi áhrif. Út frá þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir eru eftirfarandi sviðsmyndir mögulegar án þess að hægt sé að segja til um hver þeirra er líklegust eða hversu hratt atburðarásin mun þróast.
Ef landris stafar af kvikusöfnun:
- Kvikusöfnun hættir mjög fljótlega án frekari atburða.
- Kvikusöfnun heldur áfram á sama stað og hraða í einhvern tíma án þess að til stærri atburða komi
- Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots
- Kvikusöfnun heldur áfram og leiðir til gangainnskots og eldgoss (hraungoss á sprungu).
- Kvikusöfnun veldur jarðskjálftavirkni með stærri skjálftum á þessu svæði (allt að M6)
Ef landris stafar ekki af kvikusöfnun:
- Landrisið gæti valdið eða tengst frekari skjálftavirkni og þar með hugsanlega stærri skjálftum á þessu svæði (allt að M6).
Ef svo ólíklega vill til að gos verði eru allar líkur á að það verði hraungos en ekki öskugos eins og t.d. í Eyjafjallajökli.
Heimild: Veðurstofa Íslands.