fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífÆsispennandi vetur framundan í Gaflaraleikhúsinu

Æsispennandi vetur framundan í Gaflaraleikhúsinu

Yfir 10 þúsund gestir komu á síðasta leikári

Á liðnum vetri fékk Gaflaraleikhúsið yfir 10.000 gesti  og ef að líkum lætur gætu þeir orðið enn fleiri veturinn 2016-2017. Leikhúsið hefur markað sér nokkra sérstöðu með því að bjóða upp á sýningar fyrir alla aldurshópa og þar verður engin breyting á.

Framtíðrdeildin frumsýnir Stefán rís

Í lok október frumsýnir framtíðardeild leikhússins nýtt íslenskt leikverk um unglinga eftir þá  Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson sem margir muna eftir úr Unglingnum sem leikhúsið setti upp árið 2014. Leikritið heitir Stefán rís og er byggt á bókinni Leitin að tilgangi Unglingsins eftir þá félaga og Bryndísi Björgvinsdóttur.

Frá æfingu á Stefán rís. Ljósmynd: Mummi Lú
Frá æfingu á Stefán rís. Ljósmynd: Mummi Lú

Verkinu, sem er fjörug og skemmtileg sýn inn í heim unglinganna, er leikstýrt af Björk Jakobsdóttur og hefur á að skipa unglingaleikaralandsliði Íslands sem hefur fjölda ára reynslu af sviðsleik í barnaleikritum og söngleikjum stóru leikhúsanna. Gaflaraleikhúsið er eina leikhús landsins sem hefur sinnt þessum áhorfendahópi markvisst og enn einu sinni eiga unglingar eftir að flykkjast í Fjörðinn.

Hvítt áfram sýnt

Í nóvember ætlar leikhúsið að halda áfram sýningum á hinu geysivinsæla barnaverki HVÍTT sem var sýnt fyrir fullu húsi í Hafnarborg síðasta vetur. Nú hefur þessi yndislega sýning flutt sig um set og verður í Listasafni Reykjavíkur í hvíta sal Hafnarhússins. Ekki er að efa að litlu börnin í höfuðborginni og foreldrar þeirra verða himinlifandi að fá þessa fallegu sýningu í heimsókn.

Á næsta ári ætlar leikhúsið síðan að frumsýna nýtt verk þar sem Gaflararnir  ætla að bregða nýju og háðsku ljósi á ástandið í íslensku samfélagi með leikverki sem heitir Nýja Ísland. Þetta er spennandi rannsóknarverkefni  fyrir alla aðstandendur sýningarinnar  þar sem spurt er krefjandi spurninga.  Hvað höfum við lært? Hvert erum við að fara? Liggur leiðin aftur í sömu hjólsporin og árið 2008? Erum við algjörir hálfvitar? Hvað eru stjórnmálamennirnir okkar að segja? Hvernig líður bankabónusfólkinu í sálinni? Hvernig lítur nútíminn út miðað við árin 1904-1918? Hvað erum við að gera hérna … með þessa krónu og þessa yfirstétt? Er kenningin um helmingaskiptaflokkana goðsögn eða sannleikur? Og síðast en ekki síst…af hverju erum við svona góð í boltaíþróttum og sundi?

Í vetur ætlar Gaflaraleikhúsið líka að taka vel á móti góðum gestum þegar Leikfélag Menntaskólans í Reykjavík, Frúardagur verður með sýningu í nóvember og sjálfstæði leikhópurinn Silfurtunglið með Jóni Gunnari Þórðarsyni ætlar að frumsýna krefjandi og spennandi verk eftir spænska leikskáldið Gabríael García Lorca í janúar.  Í mars verður síðan leikfélag Flensborgarskóla með frumsýningu á nýju verki.

Í undirbúningi hjá leikhúsinu er einnig nýtt verk eftir Karl Ágúst Úlfsson sem heitir Í skugga Sveins þar sem Karl umbreytir hinu klassíska og skemmtilega verki Skugga Sveini í leikrit með söngvum fyrir alla fjölskylduna.

Það er því æsispennandi vetur framundan í Gaflaraleikhúsinu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2