Þann 9. apríl verður Ingvar Viktorsson 80 ára! Ingvar er mikill Hafnfirðingur og þekkti ótrúlega marga Hafnfirðinga með nafni og þekkti deili á fjölskyldum þeirra en Ingvar var vinsæll kennari og var um tíma bæjarstjóri í Hafnarfirði.
„Af þessu tilefni þjörmuðum við að Ingvari og linntum ekki látum fyrr en hann féllst á þá hugmynd okkar að gefið yrði út afmælisrit honum til heiðurs,“ segir í tilkynningu frá ritnefnd bókarinnar, þeim Guðjóni Inga Eiríkssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni og Lúðvík Geirssyni.
Segja þeir bókina verða stútfulla af skemmtilegum og fróðlegum sögum, m.a. frá æskuárum hans á Vífilsstöðum, starfsferli hans og félagsmálavafstri, auk þess sem sagðar verða magnaðar hafnfirskar gamansögur.
Bókin mun koma út í nóvember og aftast í henni verður Tabula Gratulatoria. Þar geta áhugasamir fengið nafn sitt (og sinna) skráð á heillaóskasíðu og um leið gerst áskrifendur að bókinni, sem mun kosta 6.900 krónur.
Gjaldið verður innheimt í gegnum heimabanka, nema annars sé óskað, en skráningin fer fram á netfanginu ingvar80ara@gmail.com og í síma 690 8595 (Erna). Áskrifendur gefi upp: NAFN/NÖFN, HEIMILISFANG OG KENNITÖLU.
Bókin verður gefin út af Bókaútgáfunni Hólum.