fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífBergrún Íris handhafi Fjöruverðlaunanna 2020

Bergrún Íris handhafi Fjöruverðlaunanna 2020

Fjöruverðlaunin eru bókmenntaverðlaun kvenna

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Veitt voru verðlaun í flokki fagurbókmennta, fræðibóka og rita almenns eðlis og svo í flokki barna- og unglingabókmennta þar sem Hafnfirðingurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir hlaut verðlaunin fyrir bók sína Kennarinn sem hvarf.

Í flokki fagurbókmennta fékk Bergþóra Snæbjörnsdóttir verðlaun fyrir bók sína Svínshöfuð.
Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fékk Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir verðlaun fyrir bók sína
Jakobína: Saga skálds og konu.

Þetta er í fjórtánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í sjötta sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.

Í rökstuðningi dómnefnda um bók Bergrúnar Írisar segir:

Bergrún Íris Sævarsdóttir er fjölkunnug mjög enda bæði afbragðs listakona og rithöfundur. Bók hennar, Kennarinn sem hvarf er fimlega byggð spennusaga sem heldur lesendum á aldrinum 9-12 ára föngnum til enda. Spennusagnaformið keyrir söguna áfram en sagan er allt í senn, hröð og skemmtileg og byggð samkvæmt lögmálum hefðbundinnar frásagnar. Söguna segir 12 ára gömul stúlka sem ásamt bekkjarfélögum sínum leita horfins kennara og leysa um leið flóknar þrautir. Persónurnar virðast við fyrstu sýn fremur einfaldar og staðlaðar en þegar á reynir eru þær ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur verða þær lifandi og margræðar þegar á frásögnina líður rétt eins og frásögnin sjálf. Bygging bókarinnar ásamt persónusköpun fleytir þessari heildstæðu sögu hátt og færir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur Fjöruverðlaunin 2020.

Sjá má nánar um Fjöruverðlaunin á www.fjoruverdlaunin.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2