fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífBergrún Íris Sævarsdóttir er nýr bæjarlistamaður

Bergrún Íris Sævarsdóttir er nýr bæjarlistamaður

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2020 er Bergrún Íris Sævarsdóttir barnabókahöfundur og teiknari sem á undanförnum árum hefur getið sér gott orð fyrir bækur sínar, bæði hér heima og erlendis. Bæjarlistamaður fær 1,5 milljónir í viðurkenningarskyni til að vinna áfram að list sinni.

Sér ævintýri og óvænta hluti í umhverfinu og hversdagslífinu

Fyrsta bók Bergrúnar Vinur minn, vindurinn, sem kom út árið 2014, vakti strax athygli og hlaut tilnefningar til bæði Fjöruverðlauna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Síðan hafa komið út tíu bækur eftir Bergrúnu þar sem hún er bæði höfundur texta og mynda. Auk þess hefur Bergrún myndskreytt fjölda annarra bóka, þar á meðal kennslubóka um allt frá stærðfræði til kynfræðslu. Fyrir bók sína (lang)elstur að eilífu hlaut Bergrún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna og unglingabóka árið 2019. Í þeirri bók tekst Bergrún á við stórar spurningar um líf og dauða af virðingu og heiðarleika. Viðfangsefni Bergrúnar eru fjölbreytt, hún bendir á óvænta hluti í umhverfinu og hversdagslífinu og hjálpar ungum lesendum og eldri aðstoðarmönnum þeirra að sjá ævintýri allstaðar. Meðal bóka hennar Næturdýrin sem fjallar um börn sem helst vilja vaka um nætur og Ró sem hún vann ásamt Evu Þorgeirsdóttur þar sem kynntar eru slökunaræfingar með texta og myndum.

Þakkar fyrir sig með bókagjöf til allra deilda á leikskólum í Hafnarfirði

Bergrún er fædd árið 1985, hún lauk prófi í listfræði frá Háskóla Íslands og síðar námi í teikningu frá Myndlistarskólanum í Reykjavík. Hún hefur sótt námskeið í gerð barnabóka og dvalið í vinnustofum bæði hér á landi og erlendis. Bergrún er búsett í Hafnarfirði ásamt eiginmanni, tveimur sonum og þrífættum ketti. Hún er með vinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðar þar sem hún er virkur þátttakandi í öflugu, skapandi samfélagi. Við val á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar er kallað eftir tillögum bæjarbúa.

„Ég er djúpt snortin og virkilega stolt af því að vera bæjarlistamaður Hafnarfjarðar. Síðustu vikur hafa margir leitað skjóls í bókum enda lestur ávallt ómetanleg hvíld frá amstri dagsins. Ég hef lesið, en líka skrifað og skapað og fundið hugarró í vatnslitum og pappír. Sköpunarþörf mannsins blómstrar ekki síst á óvissutímum. Þegar nýjar og erfiðar tilfinningar hellast yfir mannkynið eru það listamennirnir sem skrá tilfinningarnar með því að lyfta penslum, yrkja ljóð og töfra fram nýja tóna.“ segir Bergrún Íris í frétt sem fréttastofa Hafnarfjarðarbæjar hefur sent frá sér.

Bergrún hefur ákveðið að þakka fyrir sig með bókagjöf á allar deildir leikskóla Hafnarfjarðar. Önnur bókin er Næturdýrin sem fylgir ljúf tónlist eftir Ragnheiði Gröndal. Hin bókin heitir Ró, eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur, með vatnslitamyndum eftir Bergrúnu. Í Ró má finna einfaldar útskýringar á því hvernig öðlast má slökun og innri frið.

„Hafnfirðingar tóku mér opnum örmum fyrir 12 árum og hafa síðan þá sýnt og sannað að hafnfirsk hjörtu slá í takt þegar á móti blæs. Megum við sem flest finna hugarró og líða sem best, í besta bænum okkar“ segir Bergrún Íris.

Aðsend frétt.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2