fbpx
Sunnudagur, nóvember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífCanarí – Ný sýning í Sveinssafni í Krýsuvík

Canarí – Ný sýning í Sveinssafni í Krýsuvík

Opnuð formlega kl. 15 á sunnudaginn

Tvær myndanna á sýningunni

Ný sýning Sveinssafns í Sveinshúsi í Krýsuví, bláa húsið upp af Grænavatni, á verkum Sveins Björnssonar verður opnuð á sunnudaginn kl. 15. Sýningin nefnist Canarí og verður opin á sunnudaginn til kl. 17.30. Húsið verður þó opið frá kl. 13-18.

Canarí er 9. sýning Sveinssafns í Sveinshúsi og dregur hún nafn sitt af Gran Canaria en allar myndirnar urðu til í skissubók sem hann hafði með sér til í Kanaríeyja árið 1988. Skissubók þessi lét óvænt af sér vita fyrir um tveimur árum síðan og reyndust allar myndirnar í henni, 72 að tölu, vera óskráðar. Með skráningu þeirra bættust 72 myndir í safnkost Sveinssafns.

Árið 1988, þegar Canarí skissubókin varð til, var gríðarlega öflugt á listferli Sveins Björnssonar og gat af sér ógrynni verka af öllum stærðum og gerðum sem mörg hver rötuðu inn á síðustu stórsýningu hans á Kjarvalsstöðum ári síðar.

Það er ekki algengt að myndir úr einni skissubók séu látnar standa undir heilli myndlistarsýningu en nú verður látið á það reyna. Engar þessara mynda hafa verið sýndar áður opinberlega og því frumsýning á þeim rúmum 30 árum frá því að þær urðu til.

Með því að sýna eingöngu myndir úr umræddri skissubók er vakin athygli á því hversu algjör Sveinn var í list sinni og hversu trúr hann var sjálfum sér og vegferð sinni í listinni. Skissubókin ber þess órækt vitni að hann gat ekki hugsað sér að fara í frí frá brauðstritinu, eins og hann gjarnan kallaði launaða starfið sitt hjá lögreglunni, öðru vísi en að taka með sér það sem til þurfti til að skapa nýjar myndir á slíkum ferðum.

Allar myndir Canarí skissubókarinnar tilheyra svokölluðu fantasíutímabili í list Sveins Björnssonar og hefur Sveinssafn gert sér far um að vekja athygli á inntaki myndmáls þessa tímabils. Í sýningarskrá er vakin athygli á samsvörun táknheims Sveins á fantasíutímanum og emoji tjákna sem nútímamaðurinn nýtir sér í síauknum mæli í stafrænum samskiptum sínum. Mikið hefur verið fjallað um emoji en það sem er áhugavert við þann táknheim í samanburði við fantasíumyndmálverk Sveins Björnssonar er að hvort tveggja kallar á nauðsyn þess að hafa vissan skilning á merkingu tákna, enda hafa verið gefnar út opinberar þýðingar á emoji tjáknunum af tölvurisunum og Sveinssafn hefur leitast við að draga fram merkingu myndstefjanna í verkum Sveins.

Eins og alkunn er þá er hægt að leika sér með merkingu emoji tjáknann með því að raða þeim saman á mismunandi hátt og þannig skapa annaðhvort öflugri tjáningu eða tvíræðni þegar eftir henni er sóst. Canarí sýningin vekur athygli á slíkri tví- eða margræðni í myndheimi Sveins. Er við því að búast að fjörlegar samræður geti skapast við samanburð á emoji hjartatáknum og t.d. mismunandi útliti heilögu konunnar í myndheimi Sveins þegar sýningin Canarí er skoðuð.

Sveinssafn býður upp á leiðsögn auk kaffiveitinga á opnunardögum, sem eru skv. hefð fyrsti sunnudagur í mánuði yfir sumarmánuðina og fyrir hópa eftir samkomulagi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2