fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífEyrún Ósk fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Eyrún Ósk fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Hafnfirski rithöfundurinn Eyrún Ósk Jónsdóttir hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar síðastliðin fimmtdag fyrir ljóðabók sína Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa.

Eyrún Ósk Jónsdóttir
Eyrún Ósk Jónsdóttir

„Titillinn vísar í eitt ljóðanna sem fjallar um það þegar ég var svona sex ára og labbaði út í sjoppu á hverjum laugardagsmorgni til að kaupa Moggann, bland í poka og sígarettur. Það voru ekki allar afgreiðslukonurnar tilbúnar að selja sex ára barni sígarettur og því var ég vopnuð miða frá foreldrum, þar sem þau gáfu mér góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa, og það nægði yfirleitt í þá daga,“ segir Eyrún sem ætti að vera Hafnfirðingum vel kunnug en hún hefur áður gefið út þrjár skáldsögur sem gerast einmitt í Hafnarfirði, ásamt því að hafa gefið út tvær ljóðabækur, leikrit og kvikmyndahandrit.

„Ljóðin eru skrifuð út frá sjónarhorni barnsins og byggja að miklu leyti á minni eigin reynslu. Þau eru því mjög persónuleg, en auðvitað mikið ýkt til að auka dramatísk áhrif ljóðanna.“

Eyrún sem er menntaður leikari og leikstjóri starfar á íbúðakjarna fyrir fatlaða á Völlunum, auk þess sem hún er varabæjarfulltrúi.

„Ég hafði mjög gaman af því að rifja upp þessar æskuminningar fyrir ljóðabókina en sumar þeirra voru mjög súrrealískar. Eitt ljóðanna fjallar t.d um það þegar ég var svona fimm ára, þá ráku foreldrar mínir veitingaskálann úti í Viðey og það var verið að halda jarðaför þar. Það var búið að koma með kistuna en jarðarfarargestirnir voru ekki mættir. Ég og bróðir minn vorum mjög forvitin um dauðann og fórum að mana hvort annað upp í það að fara inn og kíkja ofan í kistuna. Við ákváðum að gera það, nema ég guggnaði á síðustu stundu. Bróðir minn sem var þá fjögra ára fór því einn inn og þegar hann kom út sagðist hann hafa kíkt í kistuna og að það hefði verið ógeðsleg beinagrind ofan í henni. Ég trúði honum og leit upp til hans fyrir að hafa þorað þessu. Svo hugsaði ég ekki um þetta í þrjátíu ár, fyrr en allt í einu þegar ég var að skrifa bókina að ég mundi eftir þessu. Þannig að það liðu 30 ár þar til ég áttaði mig á því að hann var að ljúga.“

Eyrún hefur áður unnið verðlaun fyrir ritstörf sín en í byrjun árs sigraði hún örleikjasamkeppni Uppsprettunnar með leikriti sínu Leikonan og fíflið og árið 2013 sigraði hún einleikja samkeppni Act alone með leikritinu Doría sem hún skrifaði ásamt Helga Sverrissyni kvikmyndagerðarmanni, en þau hafa einnig skrifað tvær unglingabækur saman.

„Þetta er náttúrulega mikill heiður fyrir rithöfund að vinna svona verðlaun og ég er bara klökk og þakklát. Það er eins með þetta og aðra sköpun, þetta er blóð, sviti og tár, svo það er gaman þegar maður fær að upplifa að aðrir meti sköpun mans líka,“ segir Eyrún Ósk Jónsdóttir handhafi Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar sem veitt eru af Reykjavíkurborg.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2