fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífFylgdarlaus börn og ungmenni virkjuð til náms og tómstunda

Fylgdarlaus börn og ungmenni virkjuð til náms og tómstunda

Í upphafi árs 2020 fékk Hafnarfjarðarbær 4 milljóna króna styrk frá félagsmálaráðuneytinu í framkvæmd á faglegri þjónustu og verkefni sem snýr að fylgdarlausum ungmennum sem koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd. Tvö sveitarfélög hafa umsjá með þessum einstaklingum í dag og hefur skortur verið á úrræðum til að mæta þörfum þeirra umfram ákveðnar grunnskyldur. Verkefnið, sem felur í sér persónulega og aðlagaða ráðgjöf, stendur öllum fylgdarlausum börnum og ungmennum, sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd, til boða á árinu 2020.

Fjöldi þeirra barna sem kemur fylgdarlaus til landsins í leit að alþjóðlegri vernd hefur farið vaxandi síðustu ár og er mikilvægt að hlúa að þörfum þeirra sem og líkamlegri og andlegri líðan. Líklegt er að málefni barna á flótta verði jafnvel fyrirferðameiri í framtíðinni. Útlendingastofnun er með viðamikla starfsemi í Hafnarfirði þar sem móttökumiðstöð er starfrækt í sveitarfélaginu. Þróunin hefur verið sú að fylgdarlaus börn eru færð í miðstöðina í Hafnarfirði og í framhaldinu er leitað til barnaverndar Hafnarfjarðar eftir þjónustu og stuðningi við þennan hóp hælisleitenda.

„Við viljum finna leiðir til að gera fylgdarlaus börn betur í stakk búin til að takast á við íslenskar aðstæður og umhverfi á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Þessir einstaklingar þurfa hvatningu og athygli frá upphafi þannig að þeir verði góðir og gildir samfélagsþegnar sem þekkja mörkin og menninguna“ segir Ægir Örn Sigurgeirsson deildarstjóri í málefnum flóttafólks og hælisleitenda hjá Hafnarfjarðarbæ.

Biðtími eftir afgreiðslu um vernd nýttur til fræðslu og virkni til náms og tómstunda

Nýtt verkefni hefur það að markmiði að undirbúa einstaklingana betur undir lífið og nýta biðtíma eftir afgreiðslu um vernd til fræðslu og virkni til náms og tómstunda. Hafnarfjarðarbær hefur gengið til liðs við fyrirtækið KVAN um sérhæfð úrræði fyrir hópinn. Þannig mun KVAN á árinu veita hverju og einu fylgdarlausu barn og ungmenni persónulega ráðgjöf og þjónustu sem felur í sér stöðumat og greiningu í upphafi og viðeigandi fræðslu í framhaldinu þar sem þátttakendur eru markvisst þjálfaðir upp í ákveðnum hæfnisþáttum sem stuðla að bættum lífsgæðum og auðvelda aðlögun að íslensku samfélagi. Dæmi um hæfniþætti sem eru þjálfaðir eru dagskipulag, mikilvægi hreyfingar, grunnatriði eldamennsku, hreinlæti, félagsfærni, samskipti, fjármál, listsköpun, samfélagskynning, íslensk menning, tómstundir og almenningssamgöngur svo fátt eitt sé nefnt.

„Hér um tilraunaverkefni að ræða sem vonandi verður að einhverju stærra og meira. Til framtíðar litið er nauðsynlegt að þróa verkferil og tryggja samræmda móttöku og þjónustu við þennan hóp frá upphafi komu þeirra til landsins og til endanlegrar afgreiðslu á máli þeirra. Sú vinna kallar á virkt og þverfaglegt samstarf allra hlutaðeigandi aðila“ segir Ægir að lokum.

  • Aðsend frétt.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2