fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
HeimFréttirMenning og mannlífGaflaraleikhúsið hefur fengið ný bíósæti og fagnar nýjum Covid reglum

Gaflaraleikhúsið hefur fengið ný bíósæti og fagnar nýjum Covid reglum

Gaflaraleikhúsið byrjar leikárið af krafti og þori

„Oft höfum við hlakkað til en aldrei eins og núna,“ segir Lárus Vilhjálmsson leikhússtjóri í Gaflaraleikhúsinu. „Eins og allir þá erum við alveg komin með upp í kok af Covid og hoppuðum því hæð okkar af gleði þegar nýju samkomureglurnar voru tilkynntar. Nú ríður á að útfæra þær vel svo að við þurfum ekki að herða reglur aftur!“

Skipt hefur verið um sæti í leikhúsinu og leikhúsið státar nú af bíósætum sem fengust úr Laugarásbíói og eru þau eflaust stærstu og mýkstu áhorfendasæti í leikhúsi á Íslandi.

„Eftir nákvæmar mælingar þá er sannarlega metri á milli sætaraða og metri á milli áhorfendahópa ef eitt sæti er autt á milli. Eins erum við með stórt andyri og getum auk þess opnað út í port,“ segir Lárus og segir að þannig sé hægt að taka á móti rúmlega 100 áhorfendum eða hópum.

Lárus Vilhjálmsson leikhússtjóri

Mamma klikk! fyrst á dagskrá

Verðlaunaverkið Mamma klikk! eftir Gunnar Helgason og Björk Jakobsdóttur verður fyrst á dagskrá en verkið var sýnt við fádæma vinsældir síðasta leikvetur og komust færri að en vildu.

Sýningin var valin leiksýning ársins á Sögum, Verðlaunahátíð barnanna á RÚV á síðasta ári og fékk Grímutilnefningu sem besta fjölskyldusýning ársins auk þess sem Valgerður Guðnadóttir fékk tilnefningu sem söngkona ársins en hún leikur auðvitað sjálfa Mömmu klikk!

„Þetta eru tveir tímar af  vönduðu fjölskylduefni sem kitlar hláturtaugarnar og hlýja hjartanu og það er akkúrat eitthvað sem allar fjölskyldur þurfa nú um mundir,“ segir Lárus.

Frumsýning á Reyfara

Í október verður frumsýnt leikritið Reyfari eftir Anthony Schaffer með þeim Jóel Sæmundssyni og Bjartmari Þórðarsyni. Þetta er alvöru krimmi með góðum skammti af spennu og hlátrum en þetta er gestasýning.

Nýtt íslenskt grínverk frumsýnt í janúar

Í janúar frumsýnir Gaflaraleikhúsið glænýtt íslenskt grínverk um konur á öllum aldri.

Leikritið ber heitið „Bíddu bara!“  Þetta er leikið og sungið grín um konur á öllum aldri og það eru stórstjörnurnar Selma Björnsdóttir, Salka Sól og Björk Jakobsdóttir sem munu semja, syngja og leika.

„Velkomin í leikhúsið í janúar og bíðið bara … þetta verður bomba!,“ segir Lárus hróðugur.

„Fyrsta skiptið“ endurfrumsýnt

Í apríl verður leikritið Fyrsta skiptið, sem sló í gegn í leikhúsinu 2018-2019, endurfrumsýnt. Klukkutíma löng ferðasýning á ensku hefur verið  unnin upp úr verkinu í samvinnu við enskan leikhóp  sem mun  æfa hér á landi  og frumsýna  verkið á leiklistarhátíð Assitej „UNGA“ sem haldin verður hér 22.-24. apríl nk.

Áætlaðar eru nokkrar sýningar hér heima  og svo mun sýningin fara í leikferð um England.

Öflugur leiklistarskóli fyrir unglinga

Að venju verður Gaflaraleikhúsið með  öflugan leiklistarskóla fyrir unglingadeildir grunnskóla Hafnarfjarðar og það býður einnig upp á leiklistarnámskeið fyrir 10-13 ára börn.

Það er því bjart framundan í Gaflaraleikhúsinu og bæjarbúar og fleiri eru hvattir til að fylgjast vel með.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2