fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífGaldrasteinn – verðlaunasmásaga

Galdrasteinn – verðlaunasmásaga

eftir Anítu Ósk Hilmarsdóttur

Ég, Tahani, 17 ára og litla systir mín Kamilah sem er aðeins 11 ára gömul, röltum um götur Nýju Delí. Það er borgin sem við búum í. Heimili eigum við ekki og heldur enga foreldra. Stræti borgarinnar og skúmaskot eru okkar íverustaðir daga sem nætur. Enga vinnu er að fá og það að eina sem ég get gert til þess að þéna peninga hér er að selja líkamann minn. Fyrir þann litla aur get ég keypt mat fyrir okkur systur. Ég reyni mitt allra besta að passa uppá Kamiluh. Í dag er hún fárveik og ég hef ekki efni á lyfjum fyrir hana en ég bið til guðs á hverjum degi og bið hann um að hjálpa okkur. Ég á von á mér eftir mánuð, veit ekki hver faðirinn er og ég kvíði framtíðinni. Ég hafði tekið áhættu með því að selja mig og nú var þetta raunin. Ég hefði farið í fóstureyðingu en ég átti varla peninga til þess að halda mér og Kamiluh á lífi, hvað þá að greiða fyrir slíka aðgerð. En þrátt fyrir að eiga lítinn pening eigum við hvora aðra að og það er það sem skiptir mestu máli. Við systurnar göngum niður langan og kuldalegan veg. Þetta er vegur þar sem margir heimilislausir krakkar og unglingar safnast saman og betla peninga af ríka fólkinu.

Kamiluh líður illa á þessum stað og ég fæ fiðrildi í magann, en ekki þessi litlu sætu fiðrildi, heldur stór, dimm og þung fiðrildi. Við finnum okkur skjól, komum okkur fyrir og ákveðum að dvelja þar því Kamilah er orðin máttfarin. Eftir fáeina daga erum við algjörlega matarlausar svo við ákveðum að fara og verða okkur útum mat. Við leggjum af stað og ég held fast í höndina á Kamiluh. Skyndilega finn ég að hún togar í mig og ég gríp um hana. Hún öskrar nafn mitt og hægt og rólega rennur hún mér úr greipum. Ég sé svartklæddan mann með grímu sem togar hana frá mér. Ég beiti öllum mínum kröftum til þess að ná henni en það tekst ekki. Ég er dofin í líkamanum og óttinn grípur mig en þrátt fyrir þunga kúluna framan á mér hleyp ég af stað. Ég heyri byssuhvelli í fjarska enda óeirðir á götum borgarinnar ekki óalgengar. Maðurinn, með Kamiluh í eftirdragi, nálgast óeirðirnar og ég er orðin smeyk. Skyndilega falla þau bæði til jarðar og lítill rauður pollur myndast. Þarna fór hún. Litla systir mín. Allt mitt líf hef ég helgað að gæta Kamiluh en nú er hún farin. Ég verð þyngri með hverri sekúndunni og finn hvernig tárin streyma niður andlit mitt. Ég geng að henni, tek hana upp og hleyp eins hratt og ég get með hana burt frá skothríðinni. Ég reyni að finna hjartslátt hennar en hann er farinn. Er ég kem í skjólið okkar legg ég Kamiluh frá mér. Þarna liggur hún hreyfingarlaus, föl og alblóðug á bringunni. Nú finn ég að litla barnið mitt er að koma í heiminn. Þarna þarf ég að skilja hana eftir, ég verð að komast á spítala og ég hef ekki krafta til að bera litlu fallegu systur mína með mér. Áður en ég fer, syng ég litla vögguvísu fyrir Kamiluh. Legg svo af stað. Á leiðinni kemur kona nokkru eldri en ég upp að mér. Hún réttir mér lítinn hvítan stein. Ég skoða steininn nánar. Það hefur kvarnast upp úr honum og þar sést glitta í fjólubláa og glitrandi kristalla. Þetta er fallegasti steinn sem ég hef nokkurn tímann séð. Það eina sem konan segir mér er að þetta sé galdrasteinn og hann muni hjálpa mér í gegnum erfiðleika, ég þurfi að passa hann vel. Svo hverfur hún á braut. Ég geng um og leita að spítala, spyrst fyrir en fæ enga hjálp. Ég er alveg að gefast upp en að lokum finn ég risastóra byggingu og sjúkrabíla fyrir utan. Þetta hlýtur að vera spítalinn. Ég geng inn og sé lækna, ég er á réttum stað. Ég trúi því að galdrasteinninn hafi komið mér til bjargar. Ég geng upp að afgreiðslu­borðinu og kona þar hjálpar mér og kemur mér í herbergi þar sem ég leggst í rúm.

Þar inni segi ég lækni allt um mig, að ég sé heimilislaus og svo fer hann út. Þegar ljósmóðirin kemur inn er ég alveg komin að því að fæða. Ég legg frá mér steininn sem konan gaf mér. Ég er búin að rembast mjög lengi en barnið kemur ekki. Við tökum smá pásu og ég get ekki hugsað um neitt annað en Kamiluh og hvað hún var orðin spennt yfir því að sjá litla barnið. En Kamilah er ekki hér. Þetta er allt svo skrýtið og þetta gerðist allt svo hratt. Ljósmóðirin kemur aftur inn og segir mér að halda áfram að rembast. Ég ætti kannski að halda á galdrasteininum, þá kemur barnið kannski fljótlega. Ég held áfram að rembast og skyndilega er barnið mitt komið í heiminn, ég heyri grátur. Ljósmóðirin vefur barnið í teppi og færir mér það. Þetta er stúlka. Fallegasta barn veraldar. Ég horfi á hana og hún minnir mig á Kamiluh. Þegar hún opnar augun sé ég að hún er með alveg eins augu og Kamilah, blá og tindrandi. Ég tárast. Ég ætla að nefna hana Kamilah í höfuðið á litlu systur minni. Rétt í þessu gengur kona inn í herbergið. Ég kannast mjög mikið við hana. Þetta er konan sem gaf mér steininn. Hvað er hún að gera hér? Ljósmóðirin segir mér að þetta sé Danika og hún sé hér til þess að taka mig að sér. Ég græt gleðitárum og þakka Daniku fyrir töfrasteininn, hann hafi bjargað lífi mínu og litlu stúlkunnar minnar. Ég gæti ekki beðið um meira einmitt núna. Danika gengur til mín og knúsar mig, síðan segir hún „Um leið og ég sá þig sá ég áhyggjur og sorg í augum þínum. En það var ekki það eina sem ég sá. Ég sá líka styrk, þrautseigju og von. Steinninn er enginn galdrasteinn. Töfrarnir búa innra með þér Tahani.“

Verðlaunasaga eftir Anítu Ósk Hilmarsdóttur úr smásagnakeppni grunnskólanna í Hafnarfirði í 8.-10. bekk vorið 2019 er Aníta Ósk var í 10. MJ í Hraunvallaskóla.

Sagan var birt í jólablað Fjarðarfrétta 18. desember 2019.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2