Það var enginn svikinn sem fór á Pollalúðrapönk tónleika Pollapönks, Kórs Öldutúnsskóla og Lúðrasveitar Hafnarfjarðar síðasta laugardag. Stemmningin var mögnuð í íþróttahúsinu við Strandgötu og troðfullt hús.
Var Pollapönk, þeir Haraldur Freyr Gíslason, Heiðar Örn Kristjánsson, Arnar Þór Gíslason og Guðni Finnsson, í forgrunni en gríðarlega vel studdir af þéttum leik Lúðrasveitar Hafnarfjarðar og fallegum söng Kórs Öldutúnsskóla sem var undir stjórn Brynhildar Auðbjargardóttur.
Rúnar Óskarsson stjórnaði Lúðrasveitinni og útsetti mörg laganna á dagskránni en Lúðraveitarfélagar höfðu veg og vanda að undirbúningi tónleikanna.
Umgjörðin var vel heppnuð sem og lýsingin skapaði skemmtilegt yfirbragð þó hún hafi verið nokkuð misjöfn og sumir flytjendur hálf myrkvaðir.
Það er gaman að sjá hafnfirskt tónleikahald í íþróttahúsinu við Strandgötu vera að aukast og ekki síst samstarf menningarstofnana sem kryddar tilveruna svo um munar.
Ljósmyndari Fjarðarfrétta kíkti við og tók nokkrar myndir.