Guðrún Helgadóttir, einn þekktasti hafnfirski rithöfundurinn fyrr og síðar, var heiðruð í vikunni og henni þökkuð fyrir ritverkin og framlag hennar til íslenskrar menningar í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna sem haldin er núna í vikunni.
Eftir Guðrúnu liggja skáldverk og sögupersónur sem þjóðin hefur lært að elska í gegnum árin eins og Páll Vilhjálmsson, tvíburabræðurnir Jón Oddur og Jón Bjarni. Með skrifum sínum í gegnum árin hefur Guðrún öðlast sess sem einn ástsælasti og vinsælasti rithöfundur okkar tíma. Skáldverk hennar telja á þriðja tug og hafa bækur hennar verið gefnar út á fjölmörgum tungumálum. Auk þess hefur hún samið nokkur leikrit.
Bergrún Íris Sævarsdóttir barnabókahöfundur sem stýrði setningarathöfn Bóka- og bíóhátíðarinnar í ár og Rósa Guðbjartsdóttir formaður fræðsluráðssóttu Guðrúnu heim í vikunni og afhentu henni þakklætisvott fyrir ómetanlegt framlag hennar til samfélagsins.
Á setningu Bóka- og bíóhátíðarinnar í Bæjarbíói las Bergrún Íris upp úr bók Guðrúnar „Ástarsögu úr fjöllunum“, að viðstöddum fjölda leikskólabarna. Fjölbreytt dagskrá hefur verið í gangi í vikunni, meðal annars var öllum hafnfirskum börnum boðið í bíó að sjá Jón Odd og Jón Bjarna, farin var söguganga um suðurbæinn þar sem Leifur Helgason bróðir Guðrúnar leiddi hóp áhugasamra um sögusvið nokkurra bóka hennar og sagði frá atburðum á æskuheimili þeirra á Jófríðarstaðarveginum og ýmislegt fleira.
Þetta er í þriðja sinn sem Bóka- og bíóhátíð barnanna er haldin í Hafnarfirði en henni er ætlað að styðja við hafnfirska læsisverkefnið „Lestur er lífsins leikur“ og vekja áhuga barna á að sökkva sér í ævintýraheima bóka og bíómynda.