Fjölmargir Hafnfirðingar, og eflaust fleiri, sem skörtuðu þjóðbúningi, röðuðu sér til myndatöku fyrir utan Hafnarborg á þjóðhátíðardaginn.
Hefur þetta verið gert að frumkvæði Guðrúnar Hildar Rosenkjær en hún var löglega forfölluð á Bessastöðum að taka við fálkaorðu fyrir starf sitt að hefja upp virðingu og halda utan um sögu íslenska þjóðbúningsins.
Þarna mátti sjá fólk á öllum aldri en yngsti einstaklingurinn var tæplega 8 mánaða sem klæddist glænýjum prjónuðum þjóðbúningi sem Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir gerði fyrir Kristínu Harðardóttur sem hannaði búninginn.
Fjölmargir búninganna voru gerðir á námskeiðum í Annríki sem Guðrún Hildur og Ásmundur Kristjánsson reka.