Mæðgurnar Eyrún Ósk Jónsdóttir og Eygló Jónsdóttir eru báðar með bækur í jólabókaflóðinu í ár, en fyrstu bókina gáfu þær út saman fyrir 23 árum síðan, ljóðabókina Gjöf, þegar Eyrún var aðeins 16 ára.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og er Eyrún nú að gefa út tólftu bókina sína og Eygló þá fjórðu. Auk þess hafa þær báðar skrifað ótal greinar í blöð og tímarit.
Eyrún var að senda frá sér ljóðsöguna Guðrúnarkviðu, sem Bjartur gefur út, og Eygló sendi frá sér smásagnarsafnið Samhengi hlutanna fyrir nokkrum vikum sem Bókabeitan gefur út.
Eyrún Ósk hefur sent frá sér fjölmargar ljóðabækur auk bóka fyrir börn og ungmenni. Hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2016 fyrir ljóðabókina Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa. Auk þess er hún leikari og leikstjóri og hefur skipulagt marga menningarviðburði í Hafnarfirði.
Eygló Jónsdóttir móðir hennar er svo fædd og uppalin í Hafnarfirði og starfar þar sem framhaldskólakennari í Flensborgarskólanum. Hún lauk masternámi í ritlist frá Háskóla Íslands og hefur sent frá sér tvær ljóðabækur og eina barnabók. Eygló hefur skrifað fjölda greina og situr í ritnefnd tímaritsins Mannúð sem fjallar um frið og mannréttindi.
„Guðrúnarkviða er ljóðsaga um konu sem rankar við sér í kistu í eigin jarðarför en kann ekki alveg við að trufla athöfnina. Bókin fjallar í raun um meðvirkni. Mér fannst mjög áhugavert að skoða þetta efni ofan í kjölinn. Hún er öll skrifuð í annarri persónu sem tekur verkið mjög nálægt lesandanum. Ég byrjaði á að skrifa þetta sem leikrit og setti það upp í Lífsgæðasetrinu síðasta haust, svo var stefnan að sýna það í ár á ýmsum hátíðum, en þeim var af sjálfsögðu öllum frestað vegna kóvíd. Það er því dásamlegt að vera komin með þessa sögu í hendurnar núna sem ljóðsögu í þessari bók, kóvíd stoppar allavega ekki lesturinn heima í stofu,“ segir Eyrún og hlær.
„Samhengi hlutanna samanstendur af fimm smásögum úr daglega lífinu og fjórum þáttum úr lífi Jónasar, sem var jú óskabarn þjóðarinnar. Ég byrjaði að skrifa verkið þegar ég var í ritlist í Háskólanum. Sögurnar hefjast allar í mjög raunsæjum búning en fara svo allar í allt aðra átt en virðist í fyrstu og upp koma absúrdískar aðstæður. Ég hef mjög gaman að leika mér með þetta, að gera eitthvað annað en fólk býst við frá mér,“ segir Eygló um bókina sína.
Sögur og ljóð hafa alltaf spilað stórt hlutverk í lífi fjölskyldunnar. „Mamma var alltaf að lesa fyrir okkur ljóð og sögur, þegar ég var lítil,“ segir Eyrún. „Svo ég byrjaði strax og ég gat skrifað að semja mín eigin ljóð og sögur. Sonur minn, Óli Hrafn, kom svo fyrst heim 5 ára gamall úr leikskólanum með myndskreytta sögu sem hann hafði samið alveg að eigin frumkvæði. Hann er núna 8 ára, og þegar við vorum að leita að einhverju til að gera saman í skertu skólastarfi þá stakk hann auðvitað upp á því að við myndum gera bók, og úr varð leikja og teiknibók sem við mæðginin bjuggum til saman og heitir Stafrófs-bardaga leikurinn og var dreift í búðir í sumar,“ segir Eyrún.
„Pabbi minn, afi Eyrúnar, Jón Valur Tryggvason, sem einnig er alinn upp í Hafnarfirði og hefur búið hér alla tíð, var sjálfur alltaf að semja eitthvað. Hann er tónlistarmaður og samdi bæði texta við eigin lög sem og erlend. Hann hefur samið mikið af tækifærisvísum og hefur gaman af því að kveðast á við aðra í fjölskyldunni. Í sumar tókum við Eyrún okkur svo til og söfnuðum þessum kveðskap hans saman og hjálpuðum honum að koma með sína fyrstu ljóðabók, Fiðringur í F-dúr heitir hún. Þannig að í raun erum við í ár, fjórar kynslóðir Hafnfirðinga í beinan ættegg öll með sína bókina sem er dálítið skemmtilegt,“ segir Eygló.
Bækurnar er hægtað nálgast í öllum helstu bókabúðum og panta með heimsendingu af netinu. Þær mæðgur hvetja fólk til þess að styðja við íslenska rithöfunda, listamenn og handverksfólk í þessu fordæmalausa ástandi og gefa bækur, list og handverk þessi jólin.