fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífHafnfirskt tónlistarfólk sigursælt á Íslensku tónlistarverðlaununum - uppfært

Hafnfirskt tónlistarfólk sigursælt á Íslensku tónlistarverðlaununum – uppfært

Vök/Margrét Rán og Auður sigursælust

Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í gær en verðlaun eru afhent í 38 flokkum auk heiðursverðlauna. Heiðursverðlaunin hlaut hin ástsæla söngkona Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir.

Flest verðlaun hlaut Auður, Auðunn Lúthersson og Margrét Rán Magnúsdóttir ásamt félögum sínum í Vök.

En það voru fleiri Hafnfirðingar sem fengu verðlaun.

Auður – söngvari ársins, verðlaun þvert á flokka

Auðunn Lúthersson – Auður

„Auðunn Lúthersson hefur sýnt það og sannað að hann er einn sterkasti söngvari í íslensku tónlistarlífi í dag. Hann hefur einstaka sviðsframkomu, geislar af öryggi og nýtir röddina til þess að ná fram mjög persónulegri nálgun í söng sínum.“

Auðunn ólst upp í Hafnarfirði, var í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, lék með FH í fótbolta og fór með öðrum unglingu á vinabæjarmót í Uppsala auk þess að skrifa leikrit og leika með Gaflararleikhúsinu og vera bróðir Hrafnhildar sunddrottningar.

Auður – Enginn eins og þú – lag ársins, popp

„Enginn eins og þú kom eins og stormsveipur inn á íslenskar útvarpsstöðvar á síðasta ári enda ekki furða því þarna er á ferðinni einstaklega skemmtilegt og vel samið lag frá Auðunni Lútherssyni. Grípandi laglína og texti sem auðvelt er að tengjast og syngja með.“

Auður – tónlistarflytjandi ársins

„Auður er sér kapituli fyrir sig þegar kemur að lifandi flutningi. Þar er allt lagt undir og Auðunn einn sterkasti flytjandi poppsins í dag. Auðunn heldur athygli áhorfandans frá fyrstu nótu til hinnar síðustu og tenging hans við áhorfendur er ótrúlega sterk.“

Andrés Þór – Avi – tónverk ársins í djass- og blúsflokki

Andrés Þór Gunnlaugsson

Hafnfirski djassgítarleikarinn og lagahöfundur, Andrés Þór Gunnlaugsson, hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónverk ársins í djass- og blúsflokki. Fékk hann verðlaunin fyrir lagið Avi af plötunni Paradox.

„Lagið Avi eftir Andrés Þór er angurvær ballaða með fallegum stíganda þar sem gítarinn fær að njóta sín. Er hér kominn nýr íslenskur djass standard“? segir í umsögn dómnefndar.

Elektra Ensemble – tónlistarflytjandi ársins, hópar – sígild og samtímatónlist

Elektra Ensemble

„Í áratug hefur Elektra verið eitt af flaggskipum íslenskrar samtímatónlistar. Hópinn skipa fimm framúrskarandi tónlistarkonur sem eru ófeimnar við tilraunir. Tíu ára afmælisins var minnst með útgáfu nýrrar plötu með verkum sem samin hafa verið sérstaklega fyrir Elektru og glæsilegum útgáfutónleikum.“

Tveir Hafnarfirðingar eru í hópnum, þær Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari og Helga Björg Arnardóttir klarínettuleikari, báðar kennarar við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Hljóðön – tónlistarviðburður ársins

Þá fengu upphafstónleikar á sýningunni Hljóðön í Hafnarborg Íslensku tónlistarverðlaunin í flokknum Tónlistarviðburður ársins – tónleikar.

Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar tekur við verðlaununum.

„Spennandi og frumleg sýning með áhrifaríkum upphafstónleikum. Hér var unnið með samspil tónlistar og rýmis og flutningur Jennifer Torrence á verkinu Níu bjöllur eftir Tom Johnson var einkar vel heppnaður,“ segir í umsögn dómnefndar.

Hildur Guðnadóttir og Sam Slater – upptökustjórn og gerð hljóðmyndar

Hildur Guðnadóttir

„Útfærsla hljóðmyndarinnar fyrir þessa mögnuðu þætti er afrek, enda hverju hljóði smalað úr gömlu kjarnorkuverki í Litháen. Sá hljóðbanki var svo verkaður inn í tónspor sem á fáa sína líka í tónlistarsögunni, hvar tónlist og hljóðlist mynda órofa vef sem styður fullkomlega við framvinduna á skjánum.“

Hildur Guðnadóttir – Chernobyl – útgáfa ársins – leikhús og kvikmyndatónlist

„Meðferð Hildar á hljóðheimi þáttanna er djörf og brýst út fyrir hefðbundið hlutverk tónlistar í kvikmyndagerð. Mörkin milli hljóðvinnslu og tónlistar verða óræð en alltaf skín vel í gegn persónulegur stíll tónskáldsins.“

Hildur gat ekki verið viðstödd afhendinguna.

Margrét Rán Magnúsdóttir í Vök – Söngkona ársins

Margrét Rán Magnúsdóttir, söngkona ársins og lagahöfundur ársins.

„Margrét vakti fyrst athygli þegar hún bar sigur úr býtum í Músíktilraunum árið 2013. Síðan þá hefur hún heillað sífellt fleiri með öruggri sviðsframkomu með hljómsveit sinni Vök. Söngrödd Margrétar, sviðsframkoma og flutningur gerir hana eina af fremstu söngkonum í sinni röð.“

Margrét Rán Magnúsdóttir í Vök – Lagahöfundur ársins

„Margrét Rán var aðeins 13 ára gömul þegar hún flutti fyrst eigin lög í sjónvarpsþætti Jóns Ólafssonar á RÚV ásamt félaga sínum í hljómsveitinni Wipeout. Margrét er löngu búin að sanna með hljómsveitinni Vök að hún er einn helsti popplagasmiður landsins og semur einstaklega grípandi lög, og það á heimsmælikvarða.“

Hljómsveitin Vök átti poppplötu ársins

Vök, In the dark – Poppplata ársins

„Með annari plötu sinni sýnir Vök að hún er ein fremsta hljómsveit landsins um þessar mundir. Platan er uppfull af grípandi laglínum og ferskri poppmúsík í heimsklassa. In the Dark er vel samsett, vönduð og hressileg poppplata.“

Vök var stofnuð í Hafnarfirði en nú eru Margrét Rán Magnúsdóttir og Andri Már Enoksson einu Hafnfirðingarnir í hljómsveitinni. Í hljómsveitinni eru: Margrét Rán Magnúsdóttir – söngur, hljómborð, gítar, hljóðgervill; Andri Már Enoksson – saxófón, hljóðgervill, sömpl; Ólafur Alexander Ólafsson – gítar, bassi og Einar Hrafn Stefánsson – ásláttarhljóðfæri.

Atari, Lára Rúnarsdóttir – Lag ársins í flokki þjóðlaga- og heimstónlistar, leikhúss- og kvikmyndatónlistar

Lára Rúnarsdóttir

„Í þessu lagi opnar Lára hjarta sitt og syngur af einlægni og afslöppun. Lagið er fallegt og flutningurinn heiðarlegur og næmur.“

Lagið flutti Lára einnig á hátíðinni ásamt hljómsveit sinni.

Fylgjast má með útsendingu frá verðlaununum hér.

Myndir frá afhendingu eru skjáskot af útsendingu RÚV.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2