fbpx
Þriðjudagur, desember 17, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífHelstu samkomu- og tónlistarstaðir í Hafnarfirði áður fyrr.

Helstu samkomu- og tónlistarstaðir í Hafnarfirði áður fyrr.

Tónlistarganga um miðbæinn

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands (FÍ) verða vítt og breitt um landið nú í september á miðvikudögum og fór önnur gangan hér í Hafnarfirði fram í kvöld. Gengið var um miðbæinn undir leiðsögn hins ágæta og fróða Jónatans Garðarssonar. Gangan hófst við Byggðasafn Hafnarfjarðar þar sem Jónatan rakti í stórum dráttum hvað fór fram t.d á Hótel Björninn sem reist var við Reykjavíkurveg á svipuðum tíma og Hótel Borg í Reykjavík. Fluttir voru inn erlendir tónlistarmenn og einnig komu tónlistarmenn innan að. Á stríðsárunum voru svo Englendingar hér og síðan Amerikanar. Braggi var við Merkurgötu og þar ráku Kanarnir bar og eigendur sýndu dans.

Vítt og breitt um bæinn voru útidansleikir t.d. á Víðistaðatúni, í Engidal og á fleiri stöðum og var þá settur upp danspallur og jafnvel ljósaseríur með tveimur litum. Handan við Vesturgötuna var skúr og þar hófst saga lúðrasveitar í bænum göngu sína fyrir aldamótin 1900 og gekk brösuglega fyrstu árin en síðan …. hefur Lúðrasveit Hafnarfjarðar glatt bæjarbúa.

Skiphóll og Ráðhúsið sem hýsir Bæjarbíó

Næst lá leiðin yfir að bókasafninu. Þar var áður Hótel Hafnarfjarðar til húsa og seinna Skiphóll en þar var rekinn veitingastaður og fóru fram dansleikir og ýmislegt fleira. Jassvakning var stofuð í Skiphól. Við Strandgötu er líka Ráðhús bæjarins sem hýsti ýmsar stofnanir í byrjun og m.a. var samkomusalur sem var margt í senn t.d. leikhús. Í dag er Bæjarbíó miðstöð tónlistar í bænum og stendur fyrir ýmsum hátíðum nú síðast Í hjarta Hafnarfjarðar.

Símstöðin

Þá var gengið upp á Austurgötu og staldrað við gömlu símstöðina sem var mikilvægur samkomustaður áður fyrr. Eitt sinn var þar Póst- og símasafn en er nú íbúðarhús.

Fríkirkjan

Fríkirkjan var næsti áfangastaður en þar hefur hljómað tónlist af ýmsum toga allt frá árinu 1912 er kirkjan var reist á 8 mánuðum. Organisti í kirkjunni í upphafi var Friðrik Bjarnason, en hann hafði áður verið í Garðakirkju og fór síðan í Hafnarfjarðarkirkju sem reis ári síðar.

Á Strandgötunni eru nokkrir staðir sem hafa verið dansstaðir og barir. Sjálfstæðishúsið þar sem voru unglingadansleikir, Alþýðuhúsið þar sem voru haldnir tónleikar og dansleikir. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar var þar lengi til húsa eða þar til hann flutti í nýtt húsnæði við hlið Hafnarfjarðarkirkju. Áður hafði skólinn verið á ýmsum stöðum m.a. í A. Hansen og Flensborgarskóla. Hafnarfjarðarbíó sýndi tónlistarmyndir en þegar það var lagt niður var því breytt í dansstað og á efstu hæð var Nillabar. Mánabar var einnig við Strandgötu og Skálinn.

Hafnarfjarðarkirkja er gott hljómleikahús og heldur nýrra er Hafnarborg, Menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar. Bak við Hafnarfjarðarkirkju við Suðurgötu er Gúttó. Þar hefur ýmislegt farið fram en elsti hluti hússins salurinn er reistur 1886 og hýsti um 300 manns sem voru nær allir Hafnfirðingar á þeim tíma. Síðan var byggt við báða enda þess. Þar voru haldin jólaböll, grímudansleikir, kenndur var þar dans, haldnir fundir af ýmsum toga og fleira. Bæjarstjórn hélt þar fundi og um tíma var Flensborgarskóli þar til húsa.

Til móts við gömlu skattstofuna er reisulegt hús. Áður en það var reist var þar annað minna sem gekk undir nafninu Klúppurinn. Það var síðasta hús áður en farið var út úr bænum enda Suðurgatan þjóðvegur í þéttbýli. Til að skemmta fólki keypti eigandinn forláta grip sem var handsnúinn og spilaði nokkurs konar plötur með danstónlist.

Síðasti áfangastaður var síðan Fjaran og Fjörukráin en þaðan sást vel til Flensborgarskóla sem einnig var samkomustaður frá upphafi en þar þurftu kennarar að geta kennt dans áður fyrr til þess að fá kennarastöðu.

Ekki má gleyma hljómplötuverslunum einni við Strangötu og annarri á Reykjavíkurvegi og seinna Musik og Sport á Hverfisgötu og hljóðverunum m.a. annars Hljóðrita.

Fróðleg ganga og skemmtileg og ýmsir sem komu með smá innskot hér og þar á leiðinni. Sólin skein og sólarlagið fallegt í lok ferðar.

Allar upplýsingar um göngustaði vítt og breitt um landið má nálgast hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2