Þannig er gjarnan spurt hér í Hafnarfirði, „Í hvaða liði ertu!“ – Gjarnan er verið að kalla eftir því hvort viðmælandinn styðji FH eða Hauka, þótt vissulega séu mörg önnur íþróttalið hér í bænum.

Minn sonur gekk snemma til liðs við FH og pabbinn fylgdi með – við styðjum jú börnin okkar og fylgjum þeim eftir!

En tíminn líður og nú er kominn lítill afadrengur, dóttursonur og hann á pabba sem er í Haukum. Drengurinn er aðeins 7 ára gamall en löngu búinn að átta sig á „rígnum“ í bænum og að afinn hafi staðið FH megin í lífinu. Hann hefur því alveg sérstaka unun af því að syngja blessað „haukalagið“ fyrir afa sinn í tíma og ótíma – „Haukar, Haukar eru alltaf beeestir“, og svo glottir hann innilega.

Já, í hvað liði ertu? Með hverjum heldur þú?

Við höfum einhverja meðfædda þörf fyrir það að tilheyra, vera hluti af hópi sem stendur saman og á sér markmið. Að tilheyra fjölskyldu – vina­hópi – skátum – kirkju – eða íþrótta­­­félagi.

En nú er aðventan gengin í garð og jólin á næsta leyti, tími sem minnir okkur á að þegar kemur að stóru málunum í lífinu, öllu því sem varðar heill okkar og hamingju þá erum við öll í sama liði með sama markmið.

Já, þetta er tími sem minnir okkur á með alveg sérstökum hætti að við erum, eða réttara sagt, eigum öll að vera í sama liði þegar kemur að sjálfum tilgangi lífsins. Bræður og systur sem þrá velferð og hamingju öllum til handa. Bræður og systur sem þráum réttlæti og frið og kærleiksrík samskipti allra heimsins barna.
Barnið sem við fögnum á jólum og fæddist forðum í Betlehem, hafði þá stóru og mikilvægu gjöf að gefa mannkyni, að setja ætíð ástina, kær­leikann í öndvegi í öllum sam­skiptum.
Barnið í Betlehem, Jesús sjálfur, gerði kærleikann að mælistiku í lífi okkar: Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig. Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.

Hann sagði okkur að Guð væri hvorki karl í skýi né strangur dómari, heldur kærleikurinn að verki í veröldinni. Hinn góði máttur sem vekur með okkur fallegar hugsanir sem stuðla að manngæsku og góðvild.

Margir hafa sagt að boðskapur hans, orðin hans og það hvernig hann steig fram sé í raun róttækasta mann­rétt­inda­krafa sem sett hefur verið fram, bylting þegar hugsað er til þess hvernig alið var á þrælsótta lítilmagn­ans í þá daga og enn í dag.

Hann beindi kastljósinu að kjörum og aðstæðum litla mannsins í ver­öldinni.

Upphóf fátæka ekkju með því að benda á gjafmildi hennar.

Og útlendinginn sem allir litu niður á, gerði hann að eilífri fyrirmynd vegna manngæsku hans og miskunn­semi. Sagan um miskunnsama Sam­verjann er líklega áhrifamesta saga sem sögð hefur verið.

Þá er nú vert að hugleiða það hvernig hann fyrir 2000 árum átti samskipti við konur sem jafningja og steig fram og rétti hlut konu sem hafði verið niðurlægð í karlrembusamfélagi.
Já við eigum öll að vera í sama liði segja jólin. Bræður og systur litla barnsins sem lagt var í jötu forðum daga í Betlehem.

Bræður og systur litlu barnanna sem búa nú í flóttamannabúðum svo skammt frá litla bænum Betlehem sem allir hugsa til á jólum.

Sagan sem hófst með fæðingu barnsins í Betlehem á erindi við okkur öll. Þetta er saga sem við getum endalaust dregið lærdóm af, vegna alls þess góða sem fylgdi þessu barni inn í veröldina.

Gleðilega hátíð.

Fríkirkjan

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here