Bæjarráð samþykkti í morgun samning um að Leikfélag Hafnarfjarðar fái Kapelluna í Lífsgæðasetrinu í St. Jó til tímbundinna afnota fyrir leiklistarstarfsemi á þess vegum til þess að glæða áhuga bæjarbúa á leiklist og öðrum þeim listgreinum sem leiksviði tengjast. Heildarflatarmál rýmis er 125,5 m².
Samningurinn gildir þó aðeins til eins árs en á samningstímanum á að leita að hentugu framtíðarhúsnæði fyrir leikfélagið. Undanfarin ár hefur Leikfélag Hafnarfjarðar verið húsnæðislaust og eru munir félagsins geymdir í gámi á geymslusvæði. Lengi hefur verið leitað að húsnæði og að sögn Gunnars Björns Guðmundssonar, formanns félagsins, var næsta skref að leggja félagið niður hefði ekki fundist húsnæði.
Félagið deildi síðast húsnæði með Gaflaraleikhúsinu og þar á undan var félagið á neðstu hæð í gamla Lækjarskóla.
Styrkur bæjarins til félagsins er eftirgjöf á húsaleigu, hitunar- og rafmagnskostnaði að upphæð rúmar 4 milljónir kr. fyrir leiguárið og er þá miðað við að leiguverð sé 2.500 kr./m².
LH skuldbindur sig til þess að standa fyrir leiklistarstarfsemi sbr. starfsáætlun á sinn kostnað sem mun m.a. samanstanda af:
- Opnum leiklistarnámskeiðum fyrir fullorðna / börn og unglinga
- Höfundasmiðjum í leikritun
- Uppsetningum á leiksýningum að hausti og vori
- Kvöldvökum og opnum húsum
LH skal hafa menningarstefnu Hafnarfjarðarbæjar og stefnu Lífsgæðaseturs St. Jó að leiðarljósi í sínu starfi og skuldbindur sig til þess að koma að skipulagningu og framkvæmd viðburða í Hafnarfirði, s.s. Jólaævintýrið í Hellisgerði, viðburður á Björtum dögum og fl.