fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífLjósmynd dagsins - Stóri-Nýibær í Krýsuvík

Ljósmynd dagsins – Stóri-Nýibær í Krýsuvík

Talið er að búið hafi verið í Krýsuvík frá landnámi. Í dag sjást aðeins rústir einar. Höfuðból Krýsuvíkur, Bæjarfell stóð undir samnefndi fjalli skammt frá Krýsuvíkurkirkju.

Skammt þar frá, austan við Stóra-Kambafell á Austurengjum stóð Stóri-Nýibær. Síðustu ábúendurnir voru Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Selvogi (f. 1877, d. 1947) og kona hans, Kristín Bjarnadóttir frá Herdísarvík (f. 1877, d .1942). Voru þau þekkt fyrir sinn myndarbúskap. Hófu þau búskap árið 1893 og fluttu þaðan alfarin til Hafnarfjarðar árið 1933 og bjuggu á Jófríðarstöðum 8b til æviloka.

Í fróðlegu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú?

„Ég hefi reynt að halda í horfinu“, segir Guðmundur, „og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.”

Gaman væri að fá upplýsingar um ljósmyndara. Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, upplýsti okkur um að þarna væru Guðrún, Þuríður, Hrefna (Hrafnhildur), Sólbjörg og Þórlaug Guðmundsdætur, en Þórlaug er amma Guðlaugar. Systkinin voru alls 17.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2