Gaflaraleikhúsið frumsýndi sl. laugardag fjölskyldusöngleikinn „Langelstur að eilífu“ í Gaflaraleikhúsinu.
Leikgerð Bjarkar Jakobsdóttur sem jafnframt leikstýrir sýningunni er byggð á verðlaunabókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur um vinina Eyju og Rögnvald sem verða bestu vinir þrátt fyrir 90 ára aldursmun. Verkið fjallar á einlægan hátt um vináttuna, lífið og dauðann en sýningin er full af gleði, söng, hlýju og hjartnæmum boðskap. Með hlutverk Rögnvaldar fer Sigurður Sigurjónsson. Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Ásgrímur Geir Logason bregða sér í ýmis hlutverk og leika meðal annars foreldra Eyju. Sjálf er Eyja leikin til skiptis af sjö ára snillingum, þeim Nínu Sólrúnu Tamimi og Iðunni Eldeyju Stefánsdóttur. Að auki skipta tíu önnur hæfileikarík börn á aldrinum sjö til tíu ára með sér hlutverkum í sýningunni.
Strax í upphafi heilluðu hinir ungu leikarar mann með flottum leik og söng. Krakkarnir komu fram eins og þrautreyndir leikarar og ekki var að sjá á þeim neinn sviðsskrekk, ekki einu sinni á Nína Sólrún Tamimi sem var ein á sviðinu í byrjun, en hún lék Eyju á þessari sýningu.
Júlíana Sara var hin upptekna móðir Eyju og Ásgrímur hinn stressaði faðir sem stundum vissi vart hvort hann væri sá fullorðni eða Eyja. Júlíana Sara stóð sig afbragðsvel í hlutverki kennslukonunnar og það kom kannski ekki á óvart að Sigurður Sigurjónsson var í essinu sínu sem hinn 96 ára gamli Rögnvaldur, fastur í 1. bekk, enda gríðarlega reyndur leikari sem varð fyrst þekktur í barnaleikriti. Tenging hinnar ungu Eyju, sem var að byrja í nýjum skóla og Rögnvaldar sem ekki einu sinni gat skrifað nafnið sitt var einstaklega falleg og brosleg um leið.
Sviðsmyndin var einföld og látlaus, nokkuð hefðbundin fyrir Hafnarfjarðarleikhúsið en ekkert vantaði og leikritið rann ljúft í gegn. Söngvarnir voru skemmtilegir og leikritið kitlaði hláturtaugarnar hressilega á sinn einfalda og hversdagslega hátt enda sagan í raun hvursdagsleg frásögn með smá ýkjum en þó eins og saga úr lífi manns.
En í lokin var ekki laust við að maður yrði klökkur og fyndi til með Eyju þegar kom að leiðarlokum.
Leikritið fær mín bestu meðmæli og höfðar vel til breiðs aldurshóps.
Guðni Gíslason