fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimFréttirMenning og mannlífMarkaðsstofa Hafnarfjarðar veitti hvatningarverðlaun í 7. sinn

Markaðsstofa Hafnarfjarðar veitti hvatningarverðlaun í 7. sinn

Hvatningarverðlaun Markaðsstofu Hafnarfjarðar voru veitt í sjötta sinn sl. fimmtudag í Hafnarborg.

Gaflaraleikhúsið fékk hvatningarverðlaunin að þessu sinni meðal annars fyrir fyrir að standa fyrir mörgum frábærum sýningum í gegnum árin sem eru ómetanlegar fyrir menningarlíf bæjarins og mikill gleðigjafi.

Við athöfnin voru einnig veitar viðurkenningar til fjögurra aðila fyrir starfsemi í þágu eflingar atvinnulífs og bæjaranda í Hafnarfirði. Þær hlutu Brikk, Iðnmark, Jónatan Garðarsson og Betri stofan sem nýliði á markaði.

Verðlaunin eru veitt ár hvert fyrirtæki, einstakling eða stofnun fyrir að lyfta bæjaranda Hafnarfjarðar upp með starfsemi sinni og athöfnum. Þau eru þakklætisvottur Markaðsstofunnar fyrir óeigingjarnt starf við að gera Hafnarfjörð að betra samfélagi.

Að þessu sinni gátu allir sent inn tilnefningar og hafa því aldrei áður eins margar tillögur borist eða rúmlega 100 talsins og fengu yfir 20 fyrirtæki atkvæði. Einn aðili hlaut þó langflestar tilnefningar og því var einhugur meðal stjórnar um valið.

Gaflaraleikhúsið

„Í umsögn með hvatningarverðlaununum segir að Gaflaraleikhúsið eigi þessi verðlaun skilið fyrir að standa fyrir mörgum frábærum sýningum í gegnum árin sem eru ómetanlegar fyrir menningarlíf bæjarins og mikill gleðigjafi. Þá hafa þau jafnframt hvatt gesti sína til að nýta aðra þjónustu í bænum, svo sem veitinga- og kaffihús og þar með glætt Hafnarfjörðinn enn meira lífi.

Í þeim fjölmörgu umsögnum sem sendar voru inn um Gaflaraleikhúsið nefndu mjög margir að barna- og unglingastarf þeirra væri algjörlega til fyrirmyndar og fjölmargir einstaklingar hafi fengið gott veganesti út í lífið eftir að hafa starfað með þeim. Þá komst einn svona að orði: „Gaflaraleikhúsið á þessi verðlaun skilið fyrir þeirra elju og ofurdugnað í að skemmta bæjarbúum bæði ungum sem öldnum óháð kyni.““

Björk Jakobsdóttir og Lárus Vilhjálmsson fulltrúar Gaflaraleikhússins.

Viðurkenningar:

Betri stofan

„Betri stofan fékk nýliðaviðurkenninguna þetta árið en stofan opnaði í desember síðastliðnum á sjöundu og efstu hæð í norðurturni Fjarðar. Um er að ræða stað þar sem fólk getur komið og unnið í fallegri og notalegri aðstöðu og jafnframt nýtt tvö ólík fundarherbergi sem og átt þess kost eftir vinnudag að njóta samveru með vinum og/eða vinnufélögum. 

Þessi nýjung í Hafnarfirði hefur fengið góðar viðtökur meðal einstaklinga og fyrirtækja sem hafa tryggt sér aðild og hafa þar með aukinn möguleika á sveigjanlegum vinnustað í stað hefðbundinnar skrifstofuaðstöðu. Staðsetningin er einstök eða eins og sagði í einum rökstuðningi fyrir tilnefningu: „Fallegasti samkomustaður í Hafnarfirði og útsýnið yfir höfnina guðdómlegt.“

Eigendur Betri stofunnar eru hjónin Geirþrúður Guttormsdóttir og Hafsteinn Hafsteinsson og hjónin Signý Eiríksdóttir og Jón Tryggvason.

Stjórn markaðsstofunnar telur að starfsemi Betri stofunnar lyfti enn frekar upp bæjarandanum og veitir henni því þessa viðurkenningu.“

Brikk

„Brikk, brauð og eldhús, opnaði í júní árið 2017 og fagnar því fimm ára afmæli í sumar.

Hjá Brikk eru gæðin í fyrirrúmi, ekta súkkulaði og rjómi í öllum kremum, nautakjötið í samlokurnar hægeldað og mikil vinna að baki hverjum einasta snúð. Súrdeigsbrauðin þeirra og salötin standa alltaf fyrir sínu og hafa algjörlega slegið í gegn.

Á Miðhellu eru í raun höfuðstöðvar fyrirtækisins. Þar fer öll forvinnsla fram sem og framleiðsla í heildsöluhluta fyrirtækisins. Flestir þekkja þó einna helst til Brikk á Norðurbakkanum, sem er orðinn vinsæll áfangastaður við aðal gönguleið Hafnfirðinga við sjávarsíðuna og hefur glætt hana enn meira lífi og ilmi af nýbökuðu bakkelsi.

Vinsældir Brikk hafa verið það miklar að opnað hefur verið útibú í Reykjavík og fyrir stuttu einnig í Kópavogi.

Fyrirtækið er í eigu þriggja fjölskyldna en fremstir í brúnni standa þeir Oddur Smári Rafnsson og Davíð Magnússon.  

Stjórn markaðsstofunnar vill hvetja Brikk til að halda áfram á sömu braut, þar sem ástríðan fyrir gæðum er í fyrirrúmi og veitir fyrirtækinu því þessa viðurkenningu.“

Iðnmark

„Fjölskyldufyrirtækið Iðnmark hefur verið starfandi frá árinu 1988 og alla tíð verið í Hafnarfirði. Það er stofnað af hjónunum Dagbjarti Björnssyni og Eyrúnu Sigurjónsdóttir en er rekið í dag af börnum þeirra Sigurjóni, Jóhönnu og Ingibjörgu.

Allt hófst þetta með Stjörnupoppinu fræga og stuttu síðar fór fyrirtækið að framleiða snakk með hinum ýmsu bragðtegundum. Í dag þekkja meira og minna allir landsmenn vörur fyrirtækisins sem fást í velflestum ef ekki öllum matvöruverslunum landsins.

Í verksmiðju sinni við Gjótuhraun framleiðir Iðnmark um 200 þúsund poka af snakki og poppi í hverjum mánuði og í raun er algerlega óviðunandi að halda partý, þá sérstaklega Júróvísjónpartý, án þess að bjóða upp á að minnsta kosti þrjár tegundir af snakki frá þeim.

Fyrirtækið hefur í gegnum árin verið einstaklega velviljað öllum íþróttafélögum og öðrum félagasamtökum í Hafnarfirði þegar kemur að styrkjum og fjáröflunum og það er sérstaklega vegna þessarar sterku samfélagslegu ábyrgðar sem stjórn markaðsstofunnar ákvað að veita Iðnmark þessa viðurkenningu.“

Jónatan Garðarsson

Jónatan Garðarsson fékk viðurkenningu fyrir margvísleg störf og framlög til hafnfirskrar listar og menningar.

„Hann er mikill Hafnfirðingur, hefur ávallt verið stoltur af því og þekkir bæinn sinn vel. Þá hefur hann aukið hróður Hafnarfjarðar á mörgum sviðum í gegnum tíðina.

Á undanförnum árum hefur hann miðlað af fróðleik sínum um sögu Hafnarfjarðar tengda tónlist, byggingum, persónum og fyrirtækjum í heilsu- og menningargöngum sem nokkur hundruð manns hafa sótt og segja kunnugir að göngur hans einkennist af miklum fróðleik samfara mikilli gleði.

Útivist og göngur hafa allt frá æskuárum verið áhugamál Jónatans sem situr meðal annars í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og stendur meðal annars ávallt vaktina í árlegri jólatrjáasölu félagsins. Þá er hann formaður Vinafélags Krýsuvíkurkirkju sem vann að því að reisa nýja kirkju eftir að sú gamla brann.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2