fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífNýtt leikrit Kvists sem hlusta má á hér

Nýtt leikrit Kvists sem hlusta má á hér

Nýtt hlaðvarpsleikrit Leikkonan og fíflið

Listahópurinn Kvistur var að senda frá sér fjórða leikritið í röð hlaðvarpsleikrita en hópurinn hóf að gera hlaðvarpsleikrit í samkomubanni vegna heimsfaraldurs. Það eru þau Gunnar Jónsson, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Hildur Kristín Thorstensen og Óskar Harðarson sem mynda listahópinn.

„Þetta er fjórða verkið okkar í röð hlaðvarpsleikrita og við erum með þrjú önnur verk í vinnslu sem von er á síðar í sumar og haust“, segir Gunnar Jónsson leikari eða Gussi eins og hann er oftast kallaður. „Þetta með að þegar einar dyr lokast opnast aðrar er svo satt. Eins erfitt og samkomubannið var fyrir listafólk þá var það samt svo að það opnaðist líka nýr heimur möguleika, til dæmis í gegnum tæknina eins og Zoom og skype og önnur samskiptaforrit. Við æfðum allt í gegnum slík forrit í samkomubanninu og við höfum haldið áfram að nýta okkur þessa tækni. Til dæmis flutti hálfur hópurinn norður á Akureyri á dögunum, svo við erum tvö í Hafnarfirði og tvö fyrir norðan, en það kemur ekki að sök. Við æfum bara í gegnum tölvuna, og svo höfum við Eyrún tekið upp okkar hluta hérna í Hafnarfirði, en Hildur og Óskar hafa tekið upp sinn hluta fyrir norðan. Í einu leikritinu, sem kemur út síðar í sumar, erum við einmitt öll fjögur að leika og við eigum samræður í verkinu, en erum samt að taka það upp í sitthvorum landshlutanum og hittumst í raun aldrei nema í tækniheiminum,“ bætir Gussi við.

„Já, manni hefði í raun aldrei látið sér detta þetta til hugar fyrir kóvíd. En nú til dæmis er ég búin að vera að jafna mig eftir smá aðgerð sem ég fór í og hef ekki getað verið mikið á ferðinni síðustu vikur, og Hildur Kristín og Óskar hafa verið í fæðingarorlofi og Gussi verið mikið að ferðast vegna Íslandsmeistara mótsins í sjóstangveiði, en samt náum við að æfa og vinna því vinnurýmið okkar er veraldarvefurinn og hann er alstaðar“, segir Eyrún.

Leikkonan og fíflið

Hlaðvörp og hljóðbækur hafa fengið byr undir báða vængi að undanförnu og finnur listahópurinn fyrir miklum áhuga á hlaðvarpsleikritunum. Leikritið sem hópurinn sendir frá sér að þessu sinni heitir Leikkonan og fíflið og er eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur en leikritið vann einmitt örleikrita-samkeppni Uppsprettunnar í Tjarnarbíó árið 2016. Leikarar eru þau Eyrún Ósk og Gussi og Óskar sá um klippingu, tónlist og hljóðmynd.

En hvað er framundan hjá hópnum?

„Já, við munum halda áfram næstu vikurnar að vinna að næstu hlaðvarpsleikritum. Við erum langt komin með upptökur á næsta verki og erum að æfa þriðja verkið og svo að skrifa jólaleikrit sem kemur næsta vetur. Þannig að þegar ég er í bænum hendist maður í upptökuverið. En svo er ég búinn að vera að taka þátt í Íslandsmeistara mótinu í sjóstangaveiði og vorið og sumarið fer að mestu leyti í það. Síðan lék ég á dögunum í kvikmyndinni Woman at sea sem verður frumsýnd á næstunni. Svo fljótlega verður farið í að pússa skóna og ryksuga rauða dregilinn og skella sér á frumsýningu“, segir Gussi.

„Ég verð með listasýningu í Litla Galleríinu sem opnar 16. júní sem ég hef verið að undirbúa“, segir Eyrún. „Þetta er bæði innsetning og myndlistarsýning sem byggir á ljóðverki. Raddinnsetning af ljóðverkinu hljómar í sýningarrýminu þar sem klippiverk eftir mig verða til sýnis en ég samdi einmitt ljóðverkið upp úr myndunum. Þá verður handskrifuð bók af ljóðverkinu og klippimyndunum til sölu í takmörkuðu upplagi. Síðan er von á ljóðabók eftir mig í haust sem Bjartur og Veröld gefur út. Síðan mun Þjóðleikhúsið sýna barnaleikrit eftir mig á næsta sýningar ári,“ bætir Eyrún við.

Hægt er að hlusta á leikritið Leikonan og fíflið hér

Hægt er að hlusta á fyrri verk listahópsins gert það á facebook síðu þeirra hér

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2